Aftur og nýkominn

Sigrún föðuramma mín skildi við á fimmtudagsmorgninum og jarðarförin verður næsta föstudag.

Ég flýg heim á fimmtudagskvöldinu og kem aftur til baka um miðjan dag á mánudeginum.

Ég hafði kvatt gömlu konuna eins vel og mér var unnt í heimsókninni í síðastliðnum mánuði, enda var þá orðið ljóst í hvað stefndi. En eins og við feðgar ræddum aðeins í gær; sama þótt skynsemin segi að þetta hafi verið óumflýjanlegt og fyrir bestu er ekki laust við að það hristi aðeins upp í manni þegar þetta er orðinn hlutur.

Arfleifð ömmu Sigrúnar verður stór og samheldin fjölskylda ásamt hafsjó góðra og notalegra minninga um hjartahlýja og ósérhlífna konu.

Góð ferð

Í gærkvöldi lenti vinkona mín í dálitlu basli þegar hún var að kveðja mig og var ekki viss hvort það væri viðeigandi að segja "góða ferð".

Eftir að hafa velt þessu aðeins fyrir mér held ég einmitt að amma, sem ekki var mikið fyrir að aðrir væru að ómaka sig hennar vegna, hefði helst viljað að ég gerði eins góða för og hægt væri.

Ég hlakka a.m.k. til að hitta stórfjölskylduna og sem eins konar tákn um það að tilveran heldur áfram og nýjar kynslóðir vaxa úr grasi verður einmitt stúdentsútskrift á laugardeginum.

Hvort ég næ eitthvað að heilsa upp á vini og kunningja verður svo að koma í ljós, ég geri ráð fyrir að fjölskyldan verði í forgangi - en ætla auðvitað að reyna að gera úr þessu eins góða ferð og hægt er og hitta fólk eftir því sem færi gefst til.

Sumarfrísferð á Frónið er svo enn á döfinni í júlí, dagsetningar óljósar.


< Fyrri færsla:
Sleggjudæmt um júró
Næsta færsla: >
Háls- og höfuðágræðsla
 


Athugasemdir (4)

1.

Sesselja reit 20. maí 2006:

Samhryggist þér vegna andláts ömmu þinnar Þórarinn! Það er gott að hafa möguleika á því að fara og kveðja.
En hvað varðar þetta með góða ferð, þá legg ég þann skilning í að það sé verið að óska manni þess að sjálft ferðalagið gangi vel, sérstaklega ef að þetta hefur verið sagt á dönsku God rejse. Hinsvegar ef að þér hefði verið óskað Góðrar skemmtunar hefði það verið algerlega óviðeigandi í alla staði því að þetta er að sjálfsögðu ekki skemmtiferð.
En nota tækifærið og óska þér góðrar ferðar....

2.

Siggi reit 20. maí 2006:

Samryggist

3.

Jón H reit 20. maí 2006:

Samhryggist kæri vinur. Nú er maður á leiðinni til Köben. Haltu þér fast.

4.

Þórarinn sjálfur reit 22. maí 2006:

Takk.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry