Rokkað á skarfabar
21. maí 2006 | 0 aths.
Á fimmtudeginum rigndi með reykvískum hætti í strekkingsvindi og almennum viðbjóði. Blessunarlega stytti svo upp seinnipartinn þegar ég hafði mælt mér móts við doktor Sjöfn sem er þessa dagana að túra um Skandinavíu.
Við hittumst á Ráðhústorginu og eftir að í ljós kom að hún hafði af sjálfsdáðun þvælst inn á Danish Design Centre (sem er annars mín klassíska túristagildra) þurfti að grípa til plans B.
Það endaði með því að við röltum yfir í Svarta demantinn og fengum okkur tebolla þar, spígsporuðum svo yfir á Hereford Beefstow og smjöttuðum þar á eðalsteikum og rauðvíni. Eftirrétturinn var svo kúluís í Nyhavn áður en við kvöddumst við Kóngsins Nýtorg enda hún á leið til Svíaríkis fyrir allar aldir daginn eftir.
Föstudagsgírskifti
Á föstudeginum fórum við skötuhjú E. og ég í gegnum fjölbreytta gíra í verkefnaafköstum.
Fyrir hádegið tókum við röska skorpu í diskussjónum um hvers konar upplýsingar við ættum að vinna með í annarri umferð tilraunavinnunnar okkar - og um ólíkar túlkanir okkar á því hvað kennaranum okkar hafði í raun þótt um hugmyndir okkar þegar hann leit við hjá okkur á fimmtudeginum.
Við náðum reyndar ekki að leiða umræðuna til lykta, heldur ákváðum að við myndum búa til sitthvor drögin að mögulegum framsetningum til að við ættum betra með að útskýra fyrir hvort öðru (og sjálfum okkur) hvaða kostir og gallar fylgdu ólíkum útfærslum.
Í hádeginu skaust E. svo út á völl að sækja kærastann og eftir matinn náðum við okkur eiginlega aldrei á flug aftur (enda hugur hennar að mestu leiti annarsstaðar en á skrifstofunni okkar).
Seinniparturinn leið því með okkur að mestu í frígír.
Ég gekk svo frá flugpöntunum heim (fattaði að ég var ekki með Vísakortið á mér, en með smá tölvuhakki tókst mér að finna númerið á netinu og sleppa við að skjótast heim eftir því). Að því loknu settist ég hjá E., kærastanum og kollegum hans yfir einum Spitfire-bjór á fredagsbarnum. Ekki endilega vondur bjór, en ljóslega ekki nýi uppáhaldsbjórinn minn.
Það er líklega allt eins gott að skjóta því inn hér eins og hvar annarsstaðar að á þriðjudaginn er ég að fara í mitt fyrsta atvinnuviðtal á dönsku, auk þess sem ég er nýbúinn að fá hnipp um mögulegt starf í Lundúnum.
Viðtalið á þriðjudaginn verður fróðlegt, bæði spurning hvernig mér mun takast að selja mig á dönskunni og hvort viðmælendur mínir reynast hafa á mér einhvern áhuga þegar hvítum lygum CV-sins míns sleppir.
Next stop Valby
Eftir stutta millilendingu hérna heima lá svo leiðin upp í Valby í kvöldkaffi hjá Hönnu Birnu, Jesper og Sif með troðinn poka af íslensku sælgæti samkvæmt beiðni húsfreyju.
Þau eru að breyta húsgagnaskipan og íbúðin í nokkurri tímabundinni óreiðu þannig að Sif var pakkað niður í kerru og við röltum yfir á kaffihús í nágrenninu þar sem við sátum úti við undir teppum og spjölluðum um heima og geima.
Eftir kaffihúsið tylltum við okkur í óreiðuna og talið barst að framtíðarmöguleikum og danska atvinnumarkaðnum. Þau voru á því að þau hefðu kannski hugmynd um íbúð handa mér ef til þess kæmi að ég verði hér áfram.
Það er eins með það og svo margt annað: Þetta kemur allt í ljós.
Rokkað á færeyskum skarfi
Frá Valby brunaði ég svo niður í miðbæ til að verða vitni að íslenskri innrás á færeyskan bar.
Ég get ekki tjáð mig mikið um prógrammið þar sem ég var seint á ferð og kom rétt fyrir pásu númer tvö. Hins vegar get ég vottað og staðfest að stuðið var mikið, bæði meðal íslenskra og færeyskra gesta.
Nokkur eftirminnileg brot:
- Ég var næstum búinn að gleyma hvað Föroya Bjór er mikill snilld. (When in Rome, do as Romans do)
- Færeyski skemmtanastjórinn var í banastuði, tók þátt í ótal endurtekningum á "Fleygja sér í brúsnum - runka sér í sturtu" performansinum með hljómsveitinni.
- Þegar skemmtanastjórinn tók að hvetja hljómsveitina til að fara úr að ofan gekk hann sjálfur á undan með góðu fordæmi.
- Hjörtur átti glæsilegan gestaperformans í "Fjöllin hafa vakað", kryddað með rokköskrum sem Axl sjálfur hefði öfundað hann af.
- Upp úr klukkan þrjú voru hljómsveitarmeðlimir orðnir svo þreyttir að þeir sáu vart út fyrir augnlokin. Söngvarinn baðst ítrekað afsökunar á því að þeir væru löngu búnir með prógrammið, en þeir rokkuðu nú samt áfram.
Hreðjatök
Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildarmönnum í mannfræðingastétt að í vísindaleiðangri til Grænlands hafi verið skjalfest mjög beinskeytt mökunaratferli grænlenskra kvenna á þarlendum skemmtistöðum. Fólst það í því að ganga að vænlegum karlpeningum og grípa um hreðjar þeirra og sjá hver viðbrögðin yrðu.
Nú dettur mér ekki í hug að fara að blanda saman færeyskum kúltúr og grænlenskum, en þó var þarna á Skarfinum færeysk kona, við það að yfirgefa léttasta skeiðið, sem virtist innblásin af hinni grænlensku tækni. Hvað svo rammt að þessu að fullfrísk íslensk karlmenni hrökkluðust undan henni um allt dansgólfið með léttum skelfingarsvip.
Að því kom þó að fyrir henni varð færeyskt karlmenni í hennar aldursflokki sem lét sér tökin vel líka og er hún þar með úr sögu þessari.
Cyberpönkið tekið alvarlega
Eftir að hljómsveitin gafst endanlega upp og los tók að koma á tónleikagesti vildi Hjörtur óður og uppvægur strunsa á Sams bar og syngja þar Africa með Toto í karókí.
Höfðu menn vart við honum í kappgöngustrunsi niðureftir, en ég flaut með Ágústi - ekki endilega til að syngja í karókí, heldur frekar að fylgjast með hverju fram færi.
Á leið okkar rákumst við á ofurölvi pönkara sem greinilega tók hugtakið cyberpönk mjög alvarlega og var með það sem helst virtist vera örgjörvaborð fest á herðar leðurjakkans síns. Hann spurði okkur að einhverju, en var svo þvoglumæltur að hann virtist sjálfur ekki vita hvað hann var að segja. Urðum við honum því að takmörkuðu liði.
Þegar við náðum lox á karókíhetjur og vorum samferða þeim síðasta spölinn að fyrirheitna landinu kom í ljós að það voru bara 25 mínútur í lokun og engin von um að komast að í biðröðinni - auk þess sem dyravörðurinn stóð fast á því að rukka menn um 30 kall fyrir þessar 25 mínútur.
Þess í stað brast á með impromptu rödduðum fimmundarsöng okkar við "Have I told you lately..." sem ómaði út um dyr Sams.
Og já, ég er meðvitaður um það að fimmundarsöngur er í eðli sínu raddaður. Ég er líka meðvitaður um að þetta gaul okkar átti lítið sem ekkert skylt við fimmundasöng, en var sungið í a.m.k. fimm ólíkum tóntegundum (enda við fimm). Þannig að það má alveg kalla þetta fimmundasöng eins og hvað annað.
Metróinn heim
Þegar hér var komið sögu ákvað ég að kveðja kappana og síga heim á leið. Það passaði akkúrat að þegar ég var á leið niður rúllustigann á Kóngsins nýtorgi var tilkynnt í hátalarakerfinu að lestin mín væri að mæta - þannig að ég snaraði mér beint um borð.
Að vísu hefði ég getað sparað mér heilt klipp með því að bíða á stöðinni í þrjú korter til viðbótar. Næturtaxtinn er nefnilega bara milli 1 og 5 og klukkan orðin kortér yfir 4. Þótt mann muni um 11 krónurnar ákvað ég að halda mínu striki.
Við vorum nú ekki sérlega mörg í lestinni síðasta spölinn, aðallega ég og gaurinn með hamborgarann. Og svo auðvitað annar pönkari kvöldins sem átti eftir að koma stuttlega við sögu.
Þannig var að þegar við komum á Universitetet stöðina (og byrjað að daga af morgni) trimmaði ég rösklega niður tröppurnar. Rétt fyrir aftan mig voru mjög drukkinn pönkari og kærastan hans (þó ekki sá móðurborðaði). Hann virtist ætla að fara að dæmi mínu, en réð ekki við tempóið og hefði stungist á hausinn ef hann hefði ekki gripið í handriðið til að forða sér frá falli.
Skriðþunginn lét hins vegar ekki að sér hæða og hann hlunkaðist með hausinn út í glerið meðfram tröppunum. Verandi með hanakamb (að vísu ósköp ræfilslegan og rýran) var hann ekki með neitt "pandehår" og hefur því fengið enn hressilegri smell. Honum virtist þó ekki merkjanlega meint af svo sjúkrabíls var tæplega þörf.
Eftir smá nætursnarl var ekki laust við að það væri orðið lesbjart í herberginu, enda klukkan farin að nálgast fimm. Hins vegar gekk mér ágætlega að sofna - enda ekki íslíngur fyrir ekki neitt.
Votur laugardagur
Án þess að færslu laugardagsins um að ég væri væntanlegur heim í næstu viku væri á nokkurn hátt ætlað að verða að minningargrein um ömmu mína, var ekki laust við að þegar ég var að berjast við að orða arfleifð hennar í einni setningu losnaði um tárastíflur og ég leyfði mér að gráta aðeins yfir lyklaborðinu.
Ég hélt svo með salttaumaðar kinnar í hressingarhjólreiðartúr upp á meginlandið. Þegar þangað var komið tók að rigna og ég tók því línuna til Aðalsteins (línan er kannski rangt orð, líklega væri krákustígur betra orð - ég get ómögulega haldið áttum á Vesterbro).
Þar dunduðum við okkur við tedrykkju og tókum upp smá hljómborðsfikt í mér sem síðar þróaðist yfir í bassalínu í lagi með léttu teknóbíti - sérlega skondið þar sem ég hafði ekki verið með neinn sérstakan takt í huga annað en bara einhvern innri ryþma.
Eftir að við höfðum farið út að græja okkur kvöldmat; prýðisgott kjöt grillað á teini, ákvað ég að það skynsamlega í stöðunni væri að koma sér heim áður en dimmdi meira (enda ég ekki með ljós á hjólið) og þreytan eftir stutta nótt færi að segja meira til sín.
Ég kom við á leiðinni og tók Kiss kiss bang bang í Blockbuster. Prýðileg skemmtun sem snýr út úr helstu frösum spæjari-í-hollívúdd kvikmyndanna.
Líkt og glöggir lesendur hafa áttað sig á þýðir þetta að ég horfði ekki á Júróvisjón. Þegar heim kom var mun áhugaverðari heimildarmynd um eldingar á DR2 og þar komst ég meðal annars að eftirfarandi:
- Á hverjum degi lenda 8 milljón eldingar á jörðinni.
- Hitinn í eldingu sem lýstur niður er fimmfaldur yfirborðshiti sólarinnar.
- Til er ákveðið fyrirbæri sem myndast þegar sandur bráðnar við það að eldingu lýstur í jörðina (og verður að gleri). Fundist hefur 5 metra langur sambræddur hólkur af þessu tagi.
- Árlega deyja um 100 manns af völdum eldinga í Flórida.
- Um helmingur þeirra sem verða fyrir eldingu lifa af.
- Þegar fólk verður fyrir eldingu berst rafstraumurinn aðallega eftir raka á yfirborði húðarinnar. Brunasár af völdum eldinga eru oftast vegna gufubruna þegar rakinn gufar upp. Það eru því alvarlegri brunasár ef menn eru í t.d. leðurfötum sem ekki hleypa gufunni strax út.
- Þessar gufumyndanir hafa t.d. sprengt skó í tætlur ef viðkomandi var votur í fæturna.
- Staðbundið veðurfar stórborga eykur líkurnar á eldingastormum.
Annars frétti ég af einum í dag sem var boðinn í sex Júrópartí. Þau voru svo öll blásin af þegar Silvía Nótt féll úr keppni.
Lokaorðin um Júró
Það er í tízku núna að blogga um hrakfarir Silvíu, evrópumetið í púi (með og án höfðatöluskilgreininga), túlkanir á því hvar mörkin liggja milli leikaraskapar og veruleika og þar með hvað á að taka alvarlega og hvað ekki. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu.
Hins vegar ætla ég að leyfa mér að stela kommenti Hugleikarans Gumma (sem ég náði ekki að samvinna með á þessari tæpu meðgöngu sem ég hef verið virkur í Hugleik) á bloggi Sigmars júrólýsara (sem á blogginu sínu veitir forvitnilega innsýn að tjaldarbaki).
Þar sagði Gummi meðal annars:
Og svo er líka alveg möguleiki að grískur almenningur sé mjög klár og hafi fattað djókið frá upphafi og tekið þátt í því af mikilli innlifun.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry