Fyrsta danska atvinnusamtalið
23. maí 2006 | 1 aths.
Í dag fór ég í fyrsta atvinnuviðtalið mitt á dönsku. Kannski er þó réttara að kalla þetta atvinnusamtal (svipað og þau sem ég fór í á Íslandi í apríl) enda meira kynningarspjall sem hugsanlega geti leitt til formlegri samningaviðræðna.
Umrætt fyrirtæki er aðallega í veflausnum, með starfsemi í .dk, .no og .se. Einhverra hluta vegna er mér hálfilla við að nefna það hér fullu nafni meðan ekkert skýrara liggur fyrir (og möguleiki að einhver þar taki út vefinn minn), en glöggir aðdáendur lesendur ættu þó að geta þrengt hringinn um hvaða fyrirtæki þetta er.
Þau fengu ferilskrána mína á hjúskaparmarkaði skólans og starfsmannastjórinn var ánægður með heimturnar þaðan; þau hefðu fengið um 30 umsóknir og hefðu valið að bjóða 6 til frekari viðræðna. Það er ekki slæmt fyrir egóið að vita að maður er í þeim 20% hópi sem áhugi er á.
Raunar þykist ég vita um a.m.k. einn af þeim 5 sem eftir standa (að mér frátöldum), því Hjörtur var næstur á undan mér í viðtal og við hittumst í anddyrinu.
Við ræddum ekkert eitt ákveðið starf, né huxanleg laun eða neitt í þeim dúr - heldur létum nægja að þrengja aðeins hringinn um það hvers konar hlutverk gætu hentað mér. Næsta skref verður hjá þeim að vega og meta viðtölin og starfsmannastjórinn ætlar svo að hafa samband við mig í næstu viku (hún nefndi að hringja í mig strax á föstudaginn, en þá verð ég heima á Íslandi þannig að það frestast fram yfir helgi).
Viðtalið gekk annars mjög vel að ég held. Danskan þvældist ekki merkjanlega fyrir mér og þegar ég var búinn að yfirvinna stressið sem sat í mér fyrstu mínúturnar gekk ágætlega að skrúfa frá bullstöðvunum.
Einna helst að starfsmannastjórinn hefði áhyggjur af að það að hafa jafnmarga hatta á hausnum í einu og henni heyrðist á mér að ég hefði haft í vefstússinu í gamla daga yrði erfitt í þeirra fyrirtæki, þar sem verkskipulagið gengi útfrá því að maður væri sérfræðingur á einu sviði (og í mesta lagi með tengingar yfir í 1-2 til viðbótar). Ég reyndi að sannfæra hana um að það yrði ekki til vandræða, sérstaklega ekki í þeirri dýnamík sem hún vildi meina að einkenndi verkefni og einstök hlutverk.
Í miðbænum
Og í framhaldi af því sem ég nefndi einhversstaðar áður að ef ég ætti að vinna í Köben myndi ég ómögulega nenna að vera að vinna einhversstaðar uppi í sveit, get ég staðfest eftir þessa heimsókn að Kaupmannahafnarútibúið er svo sannarlega í miðbænum.
Maður fékk næstum á tilfinninguna að ef maður væri virkilega í spreng gæti maður sprænt yfir á Strikið (ef þannig stæði á).
Komi í ljós að það reynist frekari áhugi á mér er þetta fyrirtæki sem mér líst það vel á að það gæti vel orðið merkjanlegt lóð Kaupmannahafnarmegin á vogarskálinni.
En það kemur allt í ljós, eins og svo margt annað.
Athugasemdir (1)
1.
Júlía reit 25. maí 2006:
ef ég er virkilega í spreng í vinnunni get ég sprænt yfir Strikið; fulla túrista gæða sér á öli á Irish Rover eða útkeyrða foreldra á Baresso...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry