Einmöltungur og draumalandið

Ein af mörgum dillum sem ég hef fengið í kollinn um dagana er sú að ég gæti kannski orðið ágætur þýðandi. Á það hefur hins vegar aldrei reynt, en óneitanlega hefur maður oft bölvað augljóstum mistökum þýðenda í t.d. sjónvarpsefni og kvikmyndum. (sbr. Tóbakstuggu)

Einhverra hluta vegna flaug mér í hug efi um það hvort t.d. sú þýðing sem mér þætti liggja beinast við á "single malt whiskey", þ.e. "einmöltungur" væri skiljanlegum nokkrum öðrum en mér.

Ég prófaði því að gúgla "einmöltung" og "einmöltungur", en það var ekki fyrr en á "einmöltungurinn" að ég fékk upp eitt hitt, einmitt á dagbók Stefáns Pálssonar sem mér finnst reyndar að hljóti að hafa beitt þessu orði fyrir sig mun oftar. En trauðlega lýgur Google.

Þessar vangaveltur um takmarkaða útbreiðslu orða leiddu yfir í hugleiðingar um evrópskar menningarkvikmyndir helga æsku minnar og "Stifler's mom" - en ég held mér sé hollast að vera ekkert að rekja leið þeirra hugleiðinga.

En nú spyr ég; hefur einhver lesandi heyrt orðið einmöltungur notað um single malt whiskey?

Draumaland Andra Snæs

Fyrr í kvöld lauk ég svo við að lesa Draumaland Andra Snæs. Ég ætla ekki að bæta neitt í yfirfullan mærðarlækinn svo nokkru nemi, en lýsi þó yfir mikilli ánægju minni með gripinn.

Þegar Andri Snær komst á flug í söguskýringum virkjanaæðisins skaut hinni alþjóðlegu upphrópun "þjitt!" oft og reglulega upp í kollinn á mér - og maður velti því fyrir sér hvort (og þá hvers vegna) það hafi virkilega enginn rannsóknarblaðamaður lagt í að velta við þessum steinum fyrr.

Hann slær fram ýmsum tölum, en sem stendur eru aðallega tvær sem mér eru minnisstæðar: 100 milljarða kostnaður við framkvæmdir sem áætlað er að leiði af sér innan við 1000 störf (að meðtöldum margfeldisáhrifum).

Þessar tölur eru mjög stuðandi ef þeim er stillt upp saman:

100.000.000.000
          1.000

Ef grunnskólastærðfræðin bregst mér ekki er þetta 100 milljón króna kostnaður á hvert starf. Og rúmlega það því störfin munu vera 882, ekki þúsund.

Það er svo ekki laust við að prakkarinn í mér sé bráðskotinn í hugmyndinni sem hann slær fram í lokakaflanum. En til að spilla ekki fyrir ólesnum ætla ég ekki að ræða hana frekar hér.

Nokkrar spurningar

Það eru nokkrar spurningar sem kvikna við lesturinn og verður ekki auðveldlega svarað héðan úr útlandinu:

  • Hvaða áhrif mun bókin hafa næst þegar virkjana- og stóriðjuumræðan blossar upp?
  • Búa íslenskir stjórnmálamenn yfir nægjanlegum stöðumatshæfileikum til að láta þessa hluti liggja í láginni þar til bókin fer að gleymast aðeins?
  • Er "Ertu þá á móti hagvexti" umræðuslátrarinn liðinn undir lok?
  • Hefur einhver þorað að tala/skrifa opinberlega á móti því sem Andri Snær segir? Þessi klausa á vef Landsvirkjunar er eina krítíska röddin sem ég finn við gúglun.
  • Er íslenska þjóðin nægilega skynsöm og þroskuð til að láta þessa bók hafa alvöru áhrif á viðhorf sín og framtíð?

Nota bene er ég ekki að mælast til að allt í bókinni sé gleypt hrátt, en hún bendir hins vegar á margt sem almenningur hefur hingað til gleypt hrátt og fyllsta ástæða er til að setja spurningarmerki við næst þegar pólitíkusarnir draga upp gömlu klisjurnar.


< Fyrri færsla:
Fyrsta danska atvinnusamtalið
Næsta færsla: >
Aftur kominn út
 


Athugasemdir (3)

1.

hildigunnur reit 24. maí 2006:

Einmöltung hef ég bara séð á vef Stefáns og svo hér. Ljómandi gott orð.

Það hefur enginn getað staðið upp og svarað þessari bók, nei. Líklega vegna þess að það er ekki hægt.

2.

Jón Heiðar reit 26. maí 2006:

Já einmöltungur er gott orð.

Þegar sterk rök koma fram þá reyna menn oft að svara þeim með þögninni. Núna er þögn þeirra sem aðhyllast stóriðjustefnuna ærandi en þeir eru nú ekkert hættir að framkvæma stefnu sína.

3.

Þórarinn Leifsson reit 28. maí 2006:

Góð og þörf bók. Algengt að virkjunnarsinnar beri fyrir sig tímaskort
þegar þessi bók bera á góma :)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry