Aftur kominn út
30. maí 2006 | 2 aths.
Blessunarlega hef ég litla reynslu af jarðarförum (þetta var t.d. í fyrsta skipti sem ég fer með líkfylgd í kirkjugarðinn - hvað þá í þriðja bíl fylgdarinnar), en að sögn kunnugra var þetta mjög vel heppnuð athöfn.
Þar munaði eflaust miklu að presturinn þekkti ömmu Sigrúnu og talaði því út frá eigin kynnum af henni.
Tregastillt selló
Það er merkilegt hvert hugurinn á það til að reika. Undir athöfninni velti ég því fyrir mér hvort það væri til einhver sérstök tregastilling fyrir selló, eða hvort það væri sellóleikarans að gera það tregafullt.
"Nú andar suðrið" hef ég t.d. aldrei heyrt í tregafyllri útgáfu.
Stíft prógramm
Annars einkenndist ferðin af stífu prógrammi.
Eftir jarðarför og erfidrykkju hittist fjölskyldan í eins konar framlengingu erfidrykkjunnar. Um kvöldið fór ég svo við þriðja mann á tónleika, laugardagurinn hófst á skírn í móðurfjölskyldunni minni, þar á eftir var kubbmót frændsystkina í Hljómskálagarðinum fram að stúdentsveislu í Hafnarfirðinum.
Sökum uppsafnaðrar þreytu varð lítið djammað á kosninganótt og sunnudagurinn var svo haldinn náðugur.
Nánari útlistanir á einstökum atburðum væntanlegar síðar (fyrst þarf ég m.a. að tékka hvað af teknum ljósmyndum eru birtingarhæfar).
En nú er það mastersverkefnið - a.m.k. í nokkra klukkutíma.
Athugasemdir (2)
1.
Óskar Örn reit 31. maí 2006:
Saknaði þín á kosningakráarrölt! Hvernig voru annars Jon Spencer & co?
2.
Þórarinn sjálfur reit 31. maí 2006:
Já, ég verð að biðjast velvirðingar á úthaldsleysi kosningakvöldins. Eftir að hafa lokið bílstjóraskyldum mínum lyppaðist ég niður í sófanum heima.
Frásögn af Spencer og félögum væntanleg...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry