Helstu bartar landsins

Ég fór á tónleikana með þeim stórfrændum mínum Albert og Nonna. Við mættum rétt fyrir 22, enda áttu tónleikarnir að byrja þá. Að íslenskri hefð var þá varla mættur kjaftur í húsið, og það tróst því fram undir kl. 23 að fyrsta hljómsveit stigi á svið.

Íslenskir bjórprísar eru ekkert gamanmál. Bjórumgangur á okkur þrjá kostaði meira en miðaverðið á tónleikana, og ef bjórverðið á Nasa er ekki glæpur gegn mannkyninu er það að minnsta kosti glæpur gegn heilbrigðri skynsemi.

Fræ

Fyrst á svið var nýleg íslensk grúppa sem ég hef ekki heyrt í/um áður; Fræ. Mér skildist á kunnugum að hún væri samansett úr liðsmönnum úr Múm Maus og Skyttunum og lék rokk með rappi yfir.

Ég er líklega bara svona gamall orðinn, en það er eitthvað við hjakktaktinn í íslensku rappi sem fer hálfilla í mig. Rokkið undir var samt prýðilegt, þótt það sé spurning hversu vel tónlistin féll inn í rokkabillí-þema kvöldins.

(Það er reyndar engin spurning að hún gerði það ekki.)

The Tremelo Beer Gut

Á eftir fræinu stigu á svið The Tremelo Beer Gut sem unnu sér helst tvennt til frægðar:

Eitthvað virtust þeir spéhræddir og kunnu ekki við sig á sviðinu nema það væri fullt af reyk. Það þýddi reyndar líka að salurinn var allur fullur af reyk og áhorfendur sáu ekki rassgat.

Hitt var að eftir þrjú lög fór maður alvarlega að þrá smá tilbreytingu. Þrjú lög voru eiginlega alveg nóg, eftir það var þetta bara endurtekning á sömu frösunum í örugglega hátt í níu lögum til viðbótar.

Powersolo

Þar á eftir kom önnur dönsk hljómsveit Powersolo, sem ég verð að viðurkenna að mér þótti fyrsta skemmtilega hljómsveit kvöldins.

Frontmaðurinn hefði vel getað verið tvíburabróðir Skara Skrípó og þeir virtust skemmta sér konunglega. Þeir voru líka merkilega þéttir miðað við að vera bara með tvo gítara og trommur.

Þeirra sett var stórfínt. Á vefnum þeirra er hægt að streyma tóndæmum í fullri lengd (falið undir hrærðu eggjunum á matseðlinum). Mæli t.d. með "Juanito".

Heavy Trash

Það var svo ekki fyrr en einhverntíman rúmlega tvö að aðalnúmerið Heavy Trash kom á svið og það verður að segjast eins og er að þeir liðu fyrir hvað þeir voru seint á ferðinni.

Það voru merkilega fáir gestir á tónleikunum og þegar hér var komið sögu voru flestir orðnir drukknir og/eða sljóir af þreytu, þannig að salurinn var lengi að taka við sér.

Hins vegar virtist hljómsveitin í miklu stuði og Spencer sýndi snilldartilþrif í að fá áhorfendur með sér. Hann er greinilega performer af guðs náð og virtist skemmta sér konunglega þrátt fyrir salarlægt fámennið. Auk frontmannanna tveggja var gítarleikarinn/söngvarinn úr Powersolo á kontrabassa og trommarinn úr Beer Gut sat trumbuvaktina.

Ég var reyndar ekki drukkinn, en óneitanlega orðinn dauðþreyttur um það leyti sem HT stigu á svið. Ég hefði gjarnan viljað njóta þeirra ferskari, en þetta var prýðilegasta skemmtun engu að síður.

Skrautlegur salur

Það var svo skemmtiatriði út af fyrir sig að fylgjast með tónleikagestum. Allar helstu upprennandi listaspírur bæjarins virtust mættar og flóamarkaðsstemmning í fatavali réði ríkjum.

Ég held t.d. að þarna hafi sést allar þekktar hárgreiðslulínur karlmanna, nema kannski hanakamburinn.

Sömuleiðis virtust allir helstu bartar landsins hafa sammælst um að mæta á tónleikana; með brilljantín í hárinu, támjóa skó eða kúrekastígvél og svört jakkaföt eða leðurjakka. Þeir virtust skemmta sér prýðilega blessaðir.

Og reyndar líka ónefndur söngvari Mínus sem fór mikinn í danstilþrifum sem lyktaði með því að hann og daman féllu um sjálf sig og kútveltust í rándýrum bjórpollum salarins.

En suma summum; fínir tónleikar sem hefðu orðið enn betri hefðu þeir byrjað fyrr og skorið aðeins af sumum upphitunarhljómsveitunum.

(Tónleikarnir og skírnin í Mosfellsbænum morguninn eftir gerðu það í sameiningu að verkum að ég punkteraðist skammarlega snemma kvölds á kosninganótt.)


< Fyrri færsla:
Rembst við stillingu
Næsta færsla: >
Kubbað við Hljómskálann
 


Athugasemdir (2)

1.

Albert frændi reit 02. júní 2006:

Fræ saman stendur af meðlimum Maus og Skyttunum.

2.

Þórarinn sjálfur reit 02. júní 2006:

My bad. Búinn að leiðrétta.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry