Rembst við stillingu

Kennarinn okkar leit við hjá okkur í gær í þeim tilgangi að hjálpa okkur að höggva á hnútana sem okkur þótti vera farnir að herðast um strjúpa vora varðandi það hvað við ættum að prófa og hvað ekki í næstu tilraunaumferð.

Hann stakk upp á milljón og einum hlut sem hægt væri að prófa og teiknaði hvernig það væri hægt. Við sátum hálf lostuð eftir og ákváðum bara að fara heim. Í dag erum við svo búin að ræða okkur í gegnum hugmyndaflóðið og koma með plan. Sem er gott.

Ég hélt upp á meginlandið og keypti mér eitt stykki miða á Hróarskelduhátíðina.

Svo skellti ég mér á nýtt leikfang og tók með mér heim í bakpokanum:

Höfuð nýja leikfangsins

Áberandi skortur á tónheyrn

Þegar ég kom heim rakst ég á nágranna minn Esben og bað hann fyrirfram afsökunar á innkaupunum.

Þegar kom svo að því að stilla gripinn rifjaðist upp mín sérstæða tónheyrn. Þannig er að ég á nokkuð gott með að heyra hvort hljómur er hreinn eða ekki, en það hvort tvö hljóðfæri eru að spila sama tón er mun erfiðara fyrir mig að greina.

Í gamla daga þegar ég var að undirbúa mig fyrir aríurnar í Sirkus fékk ég Sæberg félaga minn til að liðsinna mér aðeins. Þar kom í ljós að ef hann spilaði ákveðinn tón á píanóið var hending ef ég hitti á sama tóninn í góli, hins vegar hitti ég yfirleitt á eitthvað sem hljómaði við tóninn hans. Það að elta sungna tóna var svo mun auðveldara.

Þrátt fyrir að hafa setið við lengi og dundað mér, meðal annars með þessu voða fína flash-píanói, er ég ekki enn orðinn sáttur. Að vísu þykist ég hafa stillt C strenginn rétt, en það að fá hina til að þýðast mig (og hljóma innbyrðis) hefur reynst þrautin þyngri.

En þetta kemur allt með æfingunni.

Á morgun ætla ég að fá Emilie (sem er menntaður tónlistarkennari) til að hjálpa mér við frumstillinguna og svo kemur í ljós hvort ég get viðhaldið henni (þ.e. stillingunni) eða þarf að kaupa mér einhver hjálpartæki stillilífsins.

Beðið eftir regni

Annars sit ég bara heima og er að mana mig upp í að fara út að hlaupa.

Sem þýðir í raun að ég sit og bíð eftir að það bresti aftur á með úrhellisregni þannig að ég hafi afsökun fyrir því að vera latur í dag.

Lýk færslunni á tilvitnun í Ástu um vef sem ég verð að viðurkenna að ég þekki lítið til, en hef heyrt sögur af:

[...] barnaland.is þar sem greindarvísitölur og heilbrigð skynsemi fara til að deyja.


< Fyrri færsla:
Aftur kominn út
Næsta færsla: >
Helstu bartar landsins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry