Að taka höfnun

Ég fékk í gær tölvupóst frá starfsmannastjóra danska fyrirtækisins sem ég ræddi við í síðustu viku. Þar er mér þakkað fyrir samtalið en að:

Vi har nu truffet en beslutning og valgt at gå videre med en anden kandidat, og kan derfor ikke tilbyde dig en stilling i denne omgang.

Samkvæmt míns eigins skákskýringum á gangi mála er þetta niðurstaða sem kannski kemur ekki á óvart.

Ég held nefnilega að við höfum verið að tala svolítið á ská allan tíman; ég afhenti þeim ferilskrána mína á kynningu í skólanum, svona til að melda mig til leiks. Þegar ég fékk svo svar frá þeim hélt ég að það væri vegna þess að þau væru í almennri leit að hæfileikum.

Þegar ég horfi til baka styrkist hins vegar trú mín á að hún hafi verið með eitthvað eitt ákveðið starf í huga, en ég lagði kapp á að sýna hvað ég væri fjölhæfur og hefði (og gæti) sinnt margvíslegum störfum. Ég fékk það líka á tilfinninguna í lok samtalsins að hún væri efins um hvort ég fengi mig hamið í einni ákveðinni stöðu, þótt ég reyndi að sannfæra hana um að það yrði ekkert vandamál.

Að því viðbættu að ég tók skýrt fram að ég væri ekki viss hvort ég myndi ákveða að vera áfram í Kaupmannahöfn eða fara heim, er vel skiljanlegt að þau hafi ákveðið að veðja á tryggari hest.

Spurning um tölfræði

Hingað til hef ég getað státað mig af því að hafa aldrei farið í atvinnuviðtal um ákveðið starf öðru vísi en að mér hafi verið boðið starfið.

Hér sýnist mér hins vegar að viðmælandinn hafi verið með ákveðið starf í huga, meðan ég hélt að ég væri bara að kynna mig svona almennt. Ég hef því ákveðið að skilgreina þetta þannig að fyrra "stát" mitt standi óhaggað.

Heldur þann versta...

Þótt þessi "höfnun" komi kannski ekkert sérlega mikið á óvart, er spurning hvaða áhrif þetta hefur á hugleiðingar mínar um að verða áfram hérna í útlandinu. Mér leist mjög vel á fyrirtækið og sá í því spennandi kosti sem ég efast um að ég næði í heima á klaka.

Það gæti því gerst á einhverju minna meðvituðu plani að ég máti hugsanlega aðra valkosti hér í Köben við þennan sem gekk mér úr greipum og "finni þá skortandi" eins og Kaninn orðar það.

En ef eitthvað er sýnist mér að þessi niðurstaða hniki jafnvægisvoginni heldur til heimkomu, meðan áhugi fyrirtækisins á frekari viðræðum hefði ýtt henni töluvert í hina áttina.


< Fyrri færsla:
Kubbað við Hljómskálann
Næsta færsla: >
Beðið fyrir siggi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry