Ríó í Köben

Í fyrra fór hið svokallaða Pinsekarneval (Pinsen er danska nafnið á Hvítasunnunni) algerlega fram hjá mér , en í ár tókst mér að upplifa hluta af stemmningunni. Í ár heldur karnivalið upp á 25 ára afmæli sitt og mér skilst að því sé óvenju mikið um dýrðir.

Karnivalið felst í því að sambahópar frá allri Danmörku (og erlendur liðsauki) slá upp tjöldum í Fælledparken með sölubásum, tívolítækjum og sviðum þar sem er djammað alla helgina. Í gær, laugardag, var svo skrúðganga niður Strikið.

Vegna þvotta tafðist ég aðeins og náði ekki allri göngunni.

Á leiðinni upp á Ráðhústorg í rigningu og roki var ekki laust við að maður velti því fyrir sér hvort menn tækju í svona veðri virkilega þátt í alvöru Ríó-búningum. Þeirri spurningu var svarað um leið og ég kom inn á Ráðhústorgið og mætti tveimur blómlegum meyjum með niðurrignt hár maulandi á langlokum og ekki klæddar í neitt annað en háhælaða skó og nokkrar strategískt staðsettar gylltar glimmerræmur.

Ég stillti mér upp við enda Striksins og fylgdist með hópunum dansa hjá. Venjan virtist vera sú að fyrst fór hópur dansara (10-20 stykki) og á eftir fylgdi álíka hópur trumbuslagara frá sama sambaklúbbi.

Það var lygilegt hvað hægt er að búa til seyðandi takt og stóra "hljóðmynd" bara með nógu mörgum trommum og vel æfðum trommuleikurum.

Það er ekki spurning að íslenska Gay Pride vantar fleiri trumbuleikarasveitir - þá yrði þar enn meira stuð.

Búningar og skortur þar á

Það var mjög mismunandi hvaða stefnu hóparnir höfðu tekið í búningamálum, sumir klæddu sig nokkurn vegin eftir veðri (aðallega voru það trommuleikararnir sem fengu að vera í langermum og síðbuxum).

En það var ekki laust við að maður, með hettuna á regnjakkanum uppi, vorkenndi sumum dömunum í brasilískt innblásnum búningum (eða brasilískt innblásnum skorti á búningum). En þær virtust ná að dansa sér til hita blessaðar.

Það var svo einn og einn karldansari á stangli sem spókaði sig í "bar overkrop" svona til að dömur í áhorfendahópnum hefðu eitthvað til að horfa á.

Annars flaug mér í hug að það væri hollt að vera minntur á það stöku sinnum að ekki eru allar konur í laginu eins og nærfatamódelin sem þekja heilsíður og húsgafla um alla borg. Ef eitthvað er tóku þær búttuðu sig betur út í búningunum en horgrindurnar, þótt allar virtust skemmta sér jafn vel.

Nokkrar myndir af dýrðinni

Framan af áhorfi mínu gáfust ekki mörg færi til myndatakna. Fyrst vegna regnhlífaskógarins sem skyggði á, og þegar tók að stytta upp kunni ég ekki við að troða mér fram fyrir herskara smávaxinna túrista sem höfðu stillt sér upp fyrir framan mig.

En ég náði engu að síður að taka smá myndaskorpu og hana er að finna í nýju albúmi í myndasafninu: Júní í Köben 2006.

Karnivalstemmning í Köben

Karnivalstemmning í Köben

Ný íbúð tekin út

Eftir að allir hópar höfðu "skilað sér í mark" rakst ég á Júlíu, Þórhildi, Hall og Hallsdóttur (sem ég man ekki hvað heitir) á Ráðhústorginu. Ég spjallaði reyndar ekki lengi við þau, þar sem ég var búinn að lofa mér í heimsókn til Steina og Gunnar sem voru að flytja í nýja íbúð fyrr í vikunni.

Það reyndist prýðisfín íbúð, meira íslensk en dönsk (meira að segja með þokkalega stórum svölum). Þar var mér svo boðið í kvöldmat þegar leið á daginn og eftir að hafa dormað aðeins yfir imbanum skelltum við okkur í Fælledparken að kíkja á karnivalið.

Þar röltum við um í rólegheitum og skoðuðum mannlífið og hlustuðum á tónlistina sem barst út úr hverju tjaldi. Mjög skemmtileg stemmning, þótt myrkrið hafi ekki verið heppilegt til ljósmyndana.

Ég kvaddi þau svo milli ellefu og tólf og hjólaði heim í vornóttinni.


< Fyrri færsla:
Beðið fyrir siggi
Næsta færsla: >
Í góðum félagsskap
 


Athugasemdir (5)

1.

Elli reit 04. júní 2006:

Þegar Vilborg var að skoða þetta með mér kom eftirfarandi komment:
Akkurru þau á bumbunni?
Henni þótti líka dansararnir á vögnunum líkjast mikið Glanna glæp í gervi Glæpaskeggs sjóræningja sem sigldi, eins og allir vita, inn í lata bæ standandi á sjóræningjaskipinu sínu.

Pabbinn var meira að spá í hvort þú hefðir ekki örugglega tekið bongótrommuna með á röltið?

2.

Óskar Örn reit 04. júní 2006:

Held ég sé að eldast. Eftir að hafa flett í gegnum þetta mikla myndasafn af beru kvenmannsholdi langaði mig mest í hamborgara!

3.

Jón H reit 05. júní 2006:

Áhugavert ... ég vona að það hafi verið hlýrra í Köben en þegar ég kom þangað á kosningadaginn.

4.

Þórarinn sjálfur reit 05. júní 2006:

Elli: Ég vona samt að Stefán Karl í gervi Glanna glæps í gervi Glæpaskeggs hafi verið í efnismeira bikiníi en hinar dönsku dansipíur - þetta er jú fjölskylduþáttur. Mætti hljóðfæralaus á röltið, allar mínar trommur eru í geymslu heima á klaka og ukuleleið hefði mátt sín lítils í trumbulátunum.

Óskar: Hvort sem þú ert að eldast eða ekki, er þessi samtenging milli kvenmannsholds og hamborgara bara sikk!

Jón: Ætli það hafi ekki verið ca. 12-15 gráður, rigning en stillt. Stytti svo upp seinnipartinn.

5.

Jón Heiðar reit 05. júní 2006:

Ég tel að það sé perversion per excelans að tengja saman hamborgara og kvenmannshold.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry