Beðið fyrir siggi

Á föstudeginum horfðist ég í augu við hið óumflýjanlega og keypti mér tjúner til að geta tjónkað við stillingarnar á ukuleleinu, nánar tiltekið þennan tjúner hér. Prýðisgripur.

Meðfylgjandi er meira að segja míkrófónn til að klemma á hálsinn (á hljóðfærinu, ekki mér) sem gerir stillingar einfaldar og nákvæmar. Tjúnerinn finnur m.a.s. sjálfur hvaða tónn það er sem ég er næst, þannig að ég þarf ekki að segja honum hvaða tóni ég ætla að stilla mig að (eins og er á mörgum gítartjúnerum).

En það eru engar ýkjur að ukuleleinn þarf að stilla töluvert oft.

Mér skilst að hann muni þó halda betur stillingunum þegar strengirnir hafa verið spilaðir aðeins til.

Æfingar hafnar

Með gripinn nokkurn vegin stilltan gat ég svo hafist handa við fingraæfingar.

C, F og Am hljómarnir eru pís of keik. G er örlítið meira umhuxunarefni og E hljómarnir eru töluverð fingraleikfimi.

Í fyrstu var ég ekki að sjá hvernig í andsk. ætti að vera hægt að spila E, enda krefst hann þess að þremur fingrum sé einhvern vegin troðið á allt of lítinn blett. Ég er nú ekki með heimsins feitustu putta, en þetta var engan vegin að ganga upp. Ég var farinn að örvænta um að geta nokkurn tíman spilað lög með E-hljómi.

Hér kom þó alnetið til bjargar og gúglun á "ukulele e chord difficult" kom mér á sporið. Kúnstin er að nota alla fremstu kjúku baugfingurs til að ýta á þrjá strengi í einu, allt annað líf.

E moll er svo leystur með sambærilegu trikki.

Nú er ég helaumur í fingurgómunum, enda ekki vanur fingraleikfimi af þessu tagi.

En það þýðir ekki annað en að þrjóskast við og vona að mér takist að koma mér upp siggi á gómana.

Svo fer ég alveg bráðum að huga að því að prófa að spila einhver einföld lög.

Mikil gleði.

Kynvillur

En hvers kyns er ukulele? Hér að ofan hef ég bæði notað karlkyn og hvorugkyn (á erfitt með að sjá fyrir mér að kvenkyn eigi við).

Maður á þó aldrei að segja aldrei. Eina hljóðfærið sem ég hef tekið formlegt stig á (klarinett) er til í öllum þremur kynjum (klarínettið, klarínettinn og klarínettan) þótt kvenkynið sé vissulega sjaldnast notað.

Hefur einhver fróður maður eitthvað til mála að leggja? Óskar? Einhver hljóðfræðafróður hugleikskur beturviti? Bueller?

(Ég treysti mér ekki til að skíra gripinn fyrr en hann/hún/það hefur verið formlega kyngreint.)


< Fyrri færsla:
Að taka höfnun
Næsta færsla: >
Ríó í Köben
 


Athugasemdir (3)

1.

hildigunnur reit 04. júní 2006:

Hef alltaf haldið ukulele í hvorugkyni

2.

Óskar Örn reit 04. júní 2006:

Sammála. Tala alltaf um minn grip í hvorugkyni.

3.

Þórarinn sjálfur reit 06. júní 2006:

Þetta þykja mér sannfærandi sérfræðiálit.

Mun reyna að venja mig á að tala um ukuleleinn sem ukuleleið.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry