Så kommer sommeren

Undanfarna viku hefur verið prýðisveður á íslenskan mælikvarða, sól flestalla daga, hitinn um tuttugu gráður, en þó hefur gjólan verið svolítið köld og oft komið stöku skúrir yfir daginn. Þetta er þó það sem maður myndi klárlega kalla sumarveður í Reykjavík.

Ég er hins vegar orðinn svo góðu vanur að mér þykir ekki virkilega gott veður nema það sé viðvarandi logn. Hvítasunnudag síðastliðinn hefði ég t.d. átt að fara að dæmi nágranna minna og finna mér skjólsælan garð einhversstaðar. Þess í stað slæptist ég innivið langt fram eftir degi og það var ekki fyrr en um kaffileytið sem ég fór út í hressingargöngu og svo í framhaldi af því í hlaupatúr (hef reyndar ekki fengið jafn hressilegt endorfínkikk eftir hlaup í langan tíma).

Vikan hefur svo heilt yfir einkennst af því að sitja í skólanum fram eftir degi og rölta svo heim í sólinni, til þess að detta ekkert gábbulegra í hug en að fara í hlaupatúr. (Hljóp m.a.s. bæði miðvikudag og fimmtudag.)

Fyrsti sumardagurinn

Danir hafa mjög einfalda skilgreiningu á því hvenær fyrsti sumardagurinn rennur upp. Það er einfaldlega sá dagur þegar hitinn fer yfir 25 stig einhversstaðar í landinu.

Mér skilst að sumarið 2004 hafi fyrsti sumardagurinn verið um það leyti sem ég kom hingað út, í ágúst. Í fyrra var hann líklega í lok maí (gott ef ekki á sunddaginn mikla).

Eftir því sem ég best veit hafði hitinn ekki farið yfir 25 stig áður en helgin gekk í garð. Ég hef svo sem ekki séð það staðfest (veðurfréttatímar allir á skjön vegna HM), en miðað við spár hefði hitinn örugglega átt að fara yfir 25 stigin í dag, ef ekki þá gerist það á morgun.

Miðað við þennan mælikvarða hefur reyndar ekki komið sumar í Reykjavík síðan mælingar hófust. Ég held ég fari rétt með að hitametið þar sé milli 22 og 23 gráður.

Sólarshopping

Þennan sólardag byrjaði ég á Strikinu þar sem ég snattaðist í ýmsum erindum. Sumt var keypt, en annað reyndist annað hvort ekki til í réttum stærðum eða þörfin ekki það brýn að duga til að réttlæta útgjöldin fyrir blankan námsmann.

Ég kom þó heim stoltur eigandi danskrar landsliðstreyju. Nota bene frá þeim tíma þegar Hummel framleiddi treyjurnar - það er ekki hægt að taka alvarlega danskt landslið í Adidas treyjum. Að vísu lagði ég ekki í sleikibrjóstsykursútgáfuna , en keypti þessa útgáfu.

Þegar ég kom svo heim rétt fyrir klukkan þrjú var virkilega erfið spurning hvort maður ætti að setjast niður fyrir framan imbann, eða draga fram bikiníið og leggjast í sólbað í bakgarðinum.

Boltinn varð ofan á (ég er soldið feiminn að láta sjá mig í bikiníinu, enda dottið úr tízku) og þrátt fyrir að leikurinn væri hálfgerður hrútur tók heiladoðinn yfir og ég sat fastur yfir spriklinu.

Það var svo ekki fyrr en eftir fyrri hálfleikinn í Svíaleiknum að ég skellti mér í stuttbuxurnar og fór út að hjóla.

Indælt að fara út á stuttbuxunum um sjöleytið.

Leiðin lá um Amager Strandpark, þar sem enn var töluvert líf þótt liðið væri að kvöldi. Einna fyrirhyggjusamastur var hópurinn sem hafði tekið með sér litla rafstöð og stillt upp plötusnúðaborði með tveimur plötuspilum. Hátalararnir voru reyndar bara af stofustærð, þannig að ég efast um að stefnt hafi verið að strandreifi.

Uppgötvun dagsins

Uppgötvun dagsins var svo hversu vel Willemoes Stout og Chili Con Carne eiga saman.

Argentína - Fílabeinsströndin var klárlega skemmtilegasti leikur HM til þessa, sérstaklega fyrri hálfleikur og síðasta kortérið. Áfram knattspyrnan.


< Fyrri færsla:
Skilgreining á helvíti
Næsta færsla: >
Á steikarpönnu almættisins
 


Athugasemdir (2)

1.

hildigunnur reit 11. júní 2006:

24,8 er opinbert hitamet á venjulegum mæli Veðurstofunnar en hitinn náði 25,7 á öðrum mæli þar á bæ á sama tíma. (11. ágúst 2004) Þannig að við höfum einu sinni náð sumri...

2.

Þórarinn sjálfur reit 11. júní 2006:

Ah, ég verð að játa á mig vanþekkingu. En hef mér það til málsbóta að þegar þetta hitamet var slegið var ég innandyra (sveittur að pakka) og þetta hreinlega ekki registrerast í kollinn.

En svo ég vitni í spámann vorra tíma; "Til hamingju Reykjavík".

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry