Á steikarpönnu almættisins

Hér hefur sumarið geysað af fullum þunga í dag. Vel á þriðja tug Celsíusgráða og ekki ský sjáanlegt hérna megin við Írland.

Siggi hafði ýjað að því að það yrði smalað í bolta núna í morgun. Það lá hins vegar fyrir í gærkvöldi að úr því yrði ekki, þannig að ég leyfði mér að sofa út.

Um eittleytið var ég svo búinn að smyrja mig inn í ógurlega títaníumoxíð sólarvörn og lagstur út á teppi í bakgarðinum innan um aðra strípalinga kollegísins.

Eftir stutt stopp þar lá svo leiðin á hjólinu með kubbsettið á bögglaberanum í Tíeyringinn, garð við Amager Strandpark þar sem ég hitti Sigga, Huld og Bergþóru.

Þar sleiktum við sólina í makindum og Bergþóra át á sig gat í vínarbrauði og melónubitum.

Við spreyttum okkur svo aðeins í Kubb. Ég vann Sigga og hann tók svo ófarirnar út á Huld í næsta leik. Mér tókst næstum að sjarma Bergþóru í boltaspark en hún hélt þó að mestu tilhlýðilegri fjarlægð frá þessum furðulega fýr.

Myndavélin var með í töskunni, en lá þar óhreyfð þannig að ekki verða birtar neinar myndir af atburðum.

Um fimmleytið hjólaði maður svo heim og þótt það hafi verið orðið aðeins skuggsælt í okkar horni í garðinum var hitinn enn á fullu blússi þegar maður hjólaði heim.

Verandi af mínum næpulit var þó engin skynsemi í öðru en að vera hógvær í sólardýrkuninni og taka síðdegið inni við yfir boltasparki og fangelsisflóttum (enda viðvörun um að ósonlagið yfir Skandinavíu væri óvenju þunnt).

Í kvöldfréttum var svo hið óhjákvæmilega innslag með viðtölum við karlmenn sitjandi á dimmum börum um hábjartan dag og kærastalausum léttklæddum konum í sólbaði á ströndinni í 25 stigum.

Ætli það sé svo tilviljun að á meðan Portúgal-Angóla er leikinn skuli sunnudagsmyndir hinna sjónvarpsstöðvanna vera "The First Wifes Club" og "Maid in Manhattan"?

Spáð sama veðri á morgun. Seinnipart þriðjudags og miðvikudagsmorgun eiga svo skil að ganga yfir með eldingaveðri áður en léttir til aftur, þá reyndar bara með rúmum tuttugu gráðum. Hentar svo sem ágætlega lokaverkefnisþrælum.


< Fyrri færsla:
Så kommer sommeren
Næsta færsla: >
Vinsældir reynast falskar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry