Skeyti úr sólinni
12. júní 2006 | 0 aths.
Í dag er búin að vera brakandi sól og upp úr klukkan þrjú fór að hitna á skrifstofunni. Við hrökluðumst því út og heim um fjögurleytið.
Þá var ekki annað til bragðs en að smyrja sig í títaníumoxíðinu og leggjast út í bökun í tæpan klukkutíma í bakgarðinum.
Svo var það bara sturta og HM gláp með a.m.k. öðru auganu.
Þægindalíf.
Sendi reyndar samúðarstrauma til skrifstofuþræla í 33 gráðum í London í dag.
Tilþrifaverðlaun dagsins held ég að hann fái Ítalinn sem var vissulega sparkaður nokkuð hressilega niður og var í framhaldi borinn af velli sárkvalinn. Maður sá liðslækinn vera að keyra upp keðjusögina til að framkvæma aflimun á staðnum, en um leið og hin deyjandi kempa var komin yfir hliðarlínuna og börubeltið var spennt af spratt hann sem stálfjöður aftur inn á völlinn.
Óskarsverðlaunamóment.
Reyndar verð ég að viðurkenna að það sem ég sá af Ítölunum var ekki eins prímadonnulegt og knattspyrnulega niðurdrepandi og hefur verið einkenni þeirra á undanförnum árum (að áðurnefndu atviki frátöldu). Batnandi Ítölum er eflaust best að lifa.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry