Tímabundið í gallabuxurnar

Seinnipartinn í dag hefur hvesst heldur og orðið þungbúið yfir. Áðan féllu meira að segja nokkrir dropar, þannig að ég er kominn aftur í gallabuxur eftir nokkra daga á styttri skálmum.

Í morgun á sólin svo að skína aftur og spá vikunnar er léttskýjað með 20-25 stiga hita. Lítur ágætlega út með 17. júní hér í útlandinu.

Grillað á sólbakkanum

Eftir vinnudaginn í gær greip ég með mér köntríkrydduð grillhakkabuff úr gríðarlegu grillvöruúrvali hverfissjoppunnar og hjólaði upp á Sólbakkakollegíið þar sem Steini og Gunnur höfðu boðið mér í grillhygge með vinafólki sínu.

Steini stóð sig eins og hetja við að grilla hálft kjúklingabú og buffin mín reyndust grillast vel (og sömuleiðis snæðast vel).

Eftir matinn rembdist svo undirritaður við að sýna frisbítilþrif með Steina og Bjarka. Eftir það lék ég svo fótbolta við tvær hetjur sem náðu mér tæplega í hné (og fann mér þar verðuga andstæðinga).

Um það leyti sem við kvöddum voru þeir stuttu farnir að taka faðmlagaútgáfu íslenskrar glímu, sem reyndar endaði í ramagráti þegar annar sýndi það óþokkabragð að taka snuðið út úr liggjandi manni.

Hér heima á kollegíinu var svo hinn fágæti atburður að þriðjungur gangbúa sat í eldhúsinu og sötraði bjór. Ég settist auðvitað niður með þeim og lapti úr einum, en púnkteraðist fljótlega, enda langur og sveittur dagur á skrifstofunni að baki.

Skrúfað upp í stressinu

Í morgun fórum við E. svo yfir í bókasafnsfræðingaskólann (sem er hérna í næstu byggingu við kollegíið og þar með í þar-þarnæstu byggingu við ITU) til að prófa kerfið okkar í eye-tracking græjunni.

Þangað kom líka kennarinn okkar og prófaði umhverfið.

Hann var stórhrifinn af því sem við vorum búin að gera, en vildi gjarnan sjá okkur setja upp aðstæður sem reyndu meira á kosti hugmyndarinnar með því að auka upplýsingamagnið sem leitað er í (fjölga legókubbunum sem eru viðfangsefni okkar). Við vorum svo öll sammála um að flæðið í tilraununum mætti vera betra og skýrara til að koma í veg fyrir t.d. þjófstört og aðra hnökra.

Við höfum látið okkur dreyma um að fá fyrstu 5 tilraunakanínurnar á föstudaginn, en eftir að hafa setið sveitt við það frá hádegi að færa okkur nær hugmyndum kennarans erum við orðin efins um að það takist.

Eins og planið er núna stefnum við á að fá tvær tilrauna-tilraunakanínur á seinnipart föstudags til að prófa það sem við verðum komin með þá.

Stefnir a.m.k. í langa daga á næstunni.


< Fyrri færsla:
Örlítið síðbúinn Sögubónus
Næsta færsla: >
Með og móti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry