Með og móti
14. júní 2006 | 5 aths.
Ef ég ákveð að flytja heim í haust þyrfti ég helst að taka ákvörðun um það núna fyrir lok mánaðarins til að geta sagt leigjandanum mínum upp með þriggja mánaða fyrirvara og flutt inn í byrjun október.
Það fæli reyndar í sér töluvert span í september með skilum, prófi, útlandaskreppi og flutningum - en ég veit ekki hvort ég tími að taka enn einn launalausan mánuð og lifa bóhemalífi hér úti í október.
En til að gefa örlítinn nasaþef af því hvað ég sé sem kosti og galla við borgirnar tvær er hér smá samanburður á nokkrum atriðum sem mér þykja skipta máli:
Kaupmannahöfn | Reykjavík |
---|---|
Vinir og kunningjar. | Vinir, kunningjar, fjölskyldan og vitleysingarnir í Hugleik. |
Allt óljóst með vinnu, vinnumarkaður í klárlegri uppsveiflu. | Ýmsir vinnumöguleikar. Markaður í óljósum sveiflugangi. |
Hægt að komast af án bíls. | Virkilega erfitt að vera bíllaus. |
Húsnæðismál óljós. | Míns eigins íbúð. |
Heilmikið menningarlíf sem ég hef ekki verið að nýta mér nægilega. | Minna menningarlíf sem ég hef heldur ekki verið að nýta mér. |
Ódýrari skyndibiti. | Gasgrillið mitt. |
Von um alvöru sumarveður. | Lágu gráðurnar ekki alveg jafn naprar. Varla orð á sumri gerandi. |
Frábært úrval og aðgengi að öli. | Gæti (og hefur) verið verra. En samt... |
Hvað af þessu vegur þyngst er erfitt að segja, en mikið hlakka ég í augnablikinu lítið til að fara að reka bíl í borginni.
Athugasemdir (5)
1.
Alex reit 14. júní 2006:
Sumum finnst nú samt spennandi að reka bíl.
2.
Óskar Örn reit 15. júní 2006:
Miðað við fyrri færslur þá hefur þú verið glæpsamlega latur við að nýta þér kúltúrinn í Köben og munt því varla sakna hans. Hér á klaka rignir áfram inn góðum konsertum og ég mun standa mig í að draga þig með mér á einhverja þeirra, sannaðu til!
Fór annars á Roger Waters á mánudaginn og kom mér bara á óvart hvað þetta var skemmtilegt. Vöknaði næstum því um augu þarna einu sinni eða tvisvar. Næstum því! Svo eru það Belle&Sebastian með Emiliönu Torrini í í júlí, útitónleikar með Sigur Rós í sumar og Nick Cave í sept. Allt að gerast!
3.
Örn Kristinsson reit 15. júní 2006:
Það verður því miður að staðfestast að veðrið hér er hreinasti viðbjóður.
4.
Sigmar reit 15. júní 2006:
Ánægður með að bjórinn komist á Topp 8 lista yfir hluti sem hafa áhrif á hvar þú verður næstu árin...
5.
Þórarinn sjálfur reit 15. júní 2006:
Alex: Til lukku með nýja bílinn ;)
Óskar: Já, ætli mig vanti ekki aðallega samverkamann í menningarneyslunni (lesist: einhvern til að draga mig af stað). Tek Roger Waters út á Hróarskeldu.
Örn: Samhryggist þjóðinni allri.
Sigmar: Ekki gleyma skyndibitanum!
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry