Örlítið síðbúinn Sögubónus

Um daginn þegar ég var að panta far heim vegna jarðarfararinnar ákvað ég að láta loks verða af því að reyna að skrá mig í vildarklúbb Flugleiða, svona til að reyna nú að safna nokkrum punktum við öll þessi Flugleiðaflug sem mér finnst ég alltaf vera að fara í.

Að frátöldu fluginu út fyrst þegar ég kom og skreppi mínu heim til að sjá Á uppleið í Borgarleikhúsinu hef ég nefnilega alltaf flogið með Flugleiðum. Það hefur einfaldlega verið ódýrara heldur en samsvarandi flug hjá Iceland Express, eða munurinn svo lítill að þægilegri flugtímar og/eða heita kjúklingaflísin hefur dugað til að gera útslagið.

Mér tókst að skrá mig í klúbbinn, en hins vegar stræjkaði kerfið á að taka nýja fína númerið mitt gilt. Þannig að engum punktum var safnað í þeirri för.

Núna er ég svo búinn að bóka mér far heim til Íslands í tvær vikur frá 25. júlí til 8. ágúst. Það verður með Iceland Express, enda ætla ég að nýta mér það að fljúga til Akureyrar og svo til baka frá Keflavík.

Fari svo að ég flytji heim í haust yrði það örugglega með Iceland Express, enda bjóða Flugleiðir enn ekki upp á flug aðra leið.

Það er því ekki að sjá að ég muni nota þetta SagaBonus meðlimskort neitt á næstunni.

En það er voða blátt og fínt...


< Fyrri færsla:
Skeyti úr sólinni
Næsta færsla: >
Tímabundið í gallabuxurnar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry