Hæ, hó, jibbíjei

Íslendingafélagið í Köben stóð venju samkvæmt fyrir þjóðhátíðarfagnaði í Fimmeyrings-garðinum við Amager Strandpark. Veðrið var ekki sérlega spennandi og þegar ég kom mér lox af stað um hálftvö-leytið var það í gallabuxum, með regnjakka og skyrtu í töskunni.

Það stóðst líka á endum að það byrjaði að tína dropa úr lofti meðan ég hjólaði á staðinn og fljótlega eftir að ég var mættur á svæðið kom hellidemba í 5-10 mínútur.

Eftir það var hins vegar bara brjáluð sól.

Það endaði með því að ég sníkti hormónahermafría sólvörn frá Elínu, enda hafði mín bjartsýni ekki náð lengra en að taka með mér sólgleraugu. Stuttbuxur og sólvörn datt mér varla í hug að taka með.

Stemmningin var annars mjög góð og við dunduðum okkur að fornum íslenskum hætti við að sötra Tuborg og narta í harðfisk.

Nú, eruð þið ekki par?

Meðal minnisstæðra atvika var þegar við Elín vorum spurð út í barneignarstatus okkar, og skömmu síðar mætti ég svo Elínu þar sem ég var á rölti með Jónínu og með Þorvald á háhest. Þá fékk ég skondið augnaráð og Elín lýsti því yfir að það hefði greinilega ýmislegt gerst síðan við hittumst síðast.

Annars var ég töluvert í því að bjarga (annarra) börnum niður úr trjám, grípa þau áður en þau þvældust inn á blakvöllinn og beita ýmsum glímutökum.

Við vorum nokkur sem óðum út í sjó, reyndar bara upp á kálfa enda hitastig sjávar ekki til að hrópa húrra fyrir - en ég hef þá a.m.k. farið í sjóinn hérna í útlandinu ;)

Um kvöldmatarleytið hjólaði ég svo heim til að taka rólegt kvöld heimavið, enda ætlum við E. að hittast í fyrramálið og taka stöðuna á verkefninu.

Nokkrar myndir frá deginum eru komnar í myndasafnið.

Afbragðs þjóðhátíðardagur.


< Fyrri færsla:
Verstur hinna vondu
Næsta færsla: >
Ég tóri enn
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 21. júní 2006:

Nú eru liðnir 4 dagar án nýrrar dagbókarfærslu. Þegar horft er til afkasta þinna fram til þessa þá getur þetta bara þýtt annað af tvennu: Þú ert ástfanginn eða dauður. Hvort er það?!

2.

Þórarinn sjálfur reit 21. júní 2006:

Möguleiki 3: Bæði latur og önnum kafinn.

En ég sé fram á að fá ráðrúm til færsluskrifa seinnipartinn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry