Verstur hinna vondu

Á föstudag fengum við fyrstu þrjár tilraunakanínurnar til að prófa testið okkar.

E. var við það að fá taugaáfall eftir að fyrsta kanínan hafði leyst öll verkefnin sín án þess nokkurn tíman að gera það sem við ætluðumst til. Hún var þó búin að jafna sig þegar leið á daginn.

Í stuttu máli virðist tilraunaumhverfið vera að virka vel tæknilega séð. Hins vegar höfum við ekki alveg huxað til enda þau verkefni (hér skrifaði ég fyrst "þær uppgjafir") sem við setjum tilraunendum fyrir.

Við ætlum að hittast á sunnudag og leggja kollana í bleyti, framkvæma svo breytingarnar á mánudeginum og vonast til að geta hafið tilraunir á þriðjudeginum.

Fredagsbar

Síðari tvær kanínur dagsins voru vinir E. og þau komu með okkur á föstudagsbarinn.

Þegar líða tók að kvöldmatarhungri fékk ég SMS frá Sigga um að hann, Eggert og Ágúst væru væntanlegir á barinn.

Ég skrapp því yfir til tyrknesku vina minna og greip mér kebab til að snæða á barnum.

Fótboltaniðurlægingin

Þetta var mjög fámennur bar, enda próftíð í gangi og ekki margir í skólanum.

Þegar leið á kvöldið tókum við að líta hýru auga til borðfótboltaspilsins, þótt allir kepptumst við við að taka fram að við værum ekki góðir í borðfótbolta.

Málin æxluðust þannig að við Eggert vorum saman í liði gegn Sigga og Ágústi.

Í stuttu máli voru þetta hvorki hraðir né áferðarfallegir leikir. (Það var m.a.s. gantast með að það væri engin þörf á hægum endursýningum, það væri nóg bara að endurtaka á raunhraða og sjá boltann leka inn.)

Ég stóð við mín orð og reyndist víðáttulélegur. Það var ekki nema rétt á meðan Marco stóð við borðið og fylgdist með að ég stillti upp fyrir sjálfan mig og skoraði tvö glæsileg mörk. Annars var ég meira í mistökum og sjálfsmörkum.

Eggert hélt okkur þó á floti framan af og fyrstu tveimur leikjunum töpuðum við 10-9 og 10-8. Í úrslitaleiknum (já, ég veit) vorum við svo flengdir 10-3 og það var því miður gríðarlega mikið mér að kenna.

Verst að ég get eiginlega ekki kennt ofurölvun um, enda ekki búinn með nema um þrjá bjóra þegar þetta var.

Hvar sem framtíðarstarf mitt kann að liggja er það a.m.k. ekki í atvinnumennsku í borðfótbolta.


< Fyrri færsla:
Freistandi danskrar fánu
Næsta færsla: >
Hæ, hó, jibbíjei
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry