Ég tóri enn

Eftir frumraun tilraunaumhverfisins okkar á föstudeginum hittumst við E. á sunnudag og fórum yfir hvað við ætluðum að gera til að ráða bót á helstu vandamálunum sem við höfðum orðið vör við.

Þær breytingar framkvæmdum við svo á mánudag og keyrðum tvær prófanir á þriðjudagsmorgninum. Það gekk vel, en við ákváðum að prjóna aðeins við tilraunirnar til að reyna að minnka áhrif heppni.

Þau verkefni sem við höfum hingað til einbeitt okkur að ganga út á að finna legókubba sem uppfylla ákveðin skilyrði (lit/stærð) í um það bil 2000 kubba "hrúgu". Það er hægt að vera heppinn og ramba á rétta kubba þar sem maður dýfir sér inn í hrúguna, en líka hægt að lenda í því að þurfa ítrekaðar atrennur til að finna það sem um er beðið.

Við vonumst til að heppni/óheppni jafnist út í þeim sex verkefnum sem lögð eru fyrir í hverri stýringarútgáfu (24 verkefni alls), en ætlum til öryggis að bæta við verkefni sem reynir á stýringarnar en einungis er hægt að leysa á einn veg. Í gær fengum við lox hugmynd sem við erum sátt við og höfum verið að dunda við að ganga frá henni í gær og í morgun.

Emilie er núna farin í skrepp til London að heilsa upp á kærastann og skoða lítinn bróðurson sinn. Ég ætla að reyna að klára viðbótina á morgun og taka svo til við að lesa eitthvað af því lesefni sem við þurfum að vera búin að innbyrða áður en við getum hafið skriftir.

Þegar hún kemur til baka á þriðjudagsmorgninum brettum við upp ermar og reynum að kýla á sem flestar prófanir fram á föstudag þegar ég skrepp á Hróarskeldu.

Færslufallið

Þetta annríki hefur gert að verkum að engar dagbókarfærslur hafa verið skráðar á dagvinnutíma og ég hálfdasaður þegar ég kem heim sennipartinn. HM hefur lox gert það að verkum að kvöldin hafa nýst illa til skrifta (hér lýkur kvöldleikjunum ekki fyrr en kl. 23).

Ekki bætir úr skák að ég er fallinn í gamla fíkn sem hefur tekið drjúgan tíma að sinna undanfarna daga.


< Fyrri færsla:
Hæ, hó, jibbíjei
Næsta færsla: >
Heja på, Sverige!
 


Athugasemdir (2)

1.

Siggi reit 21. júní 2006:

CM?
Appolólakkrís?

2.

Þórarinn sjálfur reit 22. júní 2006:

CM ;)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry