Heja på, Sverige!

Leikur gærdaxins var kannski ekki tæknilega besti leikur HM til þessa, en hann var sá fyrsti sem hefur fengið mig upp úr stólnum fagnandi mörkum.

Það var engin spurning hvort liðið hafði minn stuðning og ég fór upp úr stólnum á mörkum Svíanna og helstu færum.

Þótt Englarnir hafi átt fyrri hálfleikinn voru Svíar með yfirburði í þeim seinni og tjallarnir voru stálheppnir að tapa ekki með tvö sláarskot Svíanna og einni björgun á línu.

Eitthvað eiga tjallar eftir að bölva þunnhærða Svíanum núna þegar annar af hálfmeiddu framherjunum sem hann tók með sér er endanlega tjónaður. Þá á hann bara tvo eftir; Rooney (sem er ekki kominn í almennilegt form) og baunaspíruna sem varla fær öflugustu miðverði heimsins til að skjálfa úr skelfingu. Barnið fær auðvitað aldrei að koma inn á völlinn.

Dönsku lýsendurnir nefndu í gær töluna kvartmilljarð danskra króna sem launin sem Eriksson hefur fengið fyrir að stýra enska landsliðinu undanfarin 5 ár. Það teljast mér þá til að séu af stærðargráðunni 3 milljarðar íslenskir, eða 5 milljónir á mánuði.

Er það ekki farið að saxa hátt í íslenskan bankastjóra?

Kóreubúinn sem gleymdist

Í upptalningunni á hvar mína menn væri að finna steingleymdi ég því að Suður-Kórea væri með í keppninni.

Hefði ég ekki verið búinn að rifja það upp áður en ég sá hluta af leik Kóreu og Frakklands, minnti minn maður á sig þegar hann potvippaði yfir minn fyrrverandi í franska markinu.

Annars er aldrei að vita nema Elli bróðir reynist sannspár um gengi Spánverja (og Ghanabúar Varríusar virðast enn sem komið er í góðum málum).

Argentínumenn mínir og Hollendingar Alex eru í þessum rituðum orðum að spila ósköp daufan leik í bakgrunninum, ómögulegt að segja hvort liðið er líklegra til að komast alla leið.

Þetta fer svo allt saman að verða meira spennandi svona hvað úr hverju.

En svo það sé sagt upphátt hef ég enga trú á að Englendingar komist neitt áfram að viti.


< Fyrri færsla:
Ég tóri enn
Næsta færsla: >
Ah búi ITU?
 


Athugasemdir (1)

1.

Alex reit 21. júní 2006:

Já þetta var nú hálfdaufur leikur en hvorugt okkar tapaði þó. Leikurinn í gær var miklu meira spennandi enda var maður alveg farinn að öskra með.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry