Af íslenskri efnishyggni

Fyrir nokkrum vikum síðan, þegar við Emilie vorum einu sinni sem oftar að ræða muninn á íslenskum kúltúr og dönskum, nefndi hún samtal hennar við Huld í afmælinu mínu. Mér skilst að Huld hafi viljað meina að Íslendingar væru upp til hópa materíalístískir, en Emilie átti erfitt með að sætta sig við þá alhæfingu miðað við þá Íslendinga sem hún þekkti.

Ég benti hins vegar á að þeir Íslendingar sem hún kæmist í tæri við hér í skólanum væru klárlega ekki sérlega efnishyggnir. Enda væru erki-efnishyggjumennirnir of uppteknir við að greiða afborganir af flatskjánum og Range Rover jeppanum til að geta leyft sér það kæruleysi að vera tekjulausir í útlöndum í nokkur ár. Það væru líklega aðrar týpur sem færu í nám til útlandsins (sérstaklega á gamals aldri eins og í mínu tilviki).

Þetta spjall og fleiri sem ég hef átt undanfarið hefur hins vegar fengið mig til að velta vöngum yfir eigin efnishyggni.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að efnishyggni er nýyrði, tilraun til að búa til stigbeygjanlegt lýsingarorðsígildi úr efnishyggju. Mér þykir mun smartara að segja að A sé efnishyggnari en B heldur en að segja að A sé meiri efnishyggjumaður.

(Nýyrðasmíð Íslendinga er líka umræðuefni sem borið hefur á góma okkar Emilie, en það er önnur saga.)

Nískur eða andefnishygginn

Nú er það kannski ekki mitt að kveða úr um það hvort ég sé nískur eða ekki. Eflaust er ég það á sumum sviðum, a.m.k. er mér illa við að eyða peningum í algera vitleysu og á það til að velta einstaka kaupum óralengi fyrir mér. Slíkt á það til að koma manni í koll þegar ódýrasti kosturinn reynist drasl og maður þyrfti því líka að kaupa einhvern dýrari kostanna. Ég sé t.d. eftir því að hafa ekki keypt mér aðeins dýrara hjól með setstöðu sem hentar betur til útsýnishjólreiðatúra.

En svona heilt yfir held ég að þegar ég er búinn að sannfæra sjálfan mig um að mig vanti eitthvað reyni ég eftir megni að gera skynsamleg kaup.

Ég hef t.d. aldrei stundað það að taka neyslulán. Hef reyndar yfirleitt verið með smá yfirdráttarheimild á tékkareikningnum, en það er aðallega til að lenda ekki í vandræðum ef ég misreikna mig og fer aðeins yfir. Þó minnir mig að ég hafi tímabundið stækkað yfirdráttarheimildina þegar ég var atvinnulaus að kaupa íbúðina á Flyðrugrandanum hérna um árið.

Bílana tvo sem ég hef átt um dagana staðgreiddi ég báða.

Augljóslega mjög óíslenskt.

Hér úti finnur maður svo greinilega hvað það munar miklu að sleppa við reksturinn á bíl (og aurarnir sem ég sparaði mér á að kaupa "hagkaupsfjallahjól" frekar en alvöru city hjól blikna við hliðina á t.d. bifreiðagjöldum eða tryggingum).

Við ræddum það einmitt á fredagsbarnum síðasta hvort það væri gerlegt að vera bíllaus heima á klaka. Ég var á því að ef maður fengi vinnu sem lægi vel við strætó (eða jafnvel í göngufæri) væri fróðlegt að prófa hvort maður gæti komist af með því að nota bara leigubíl (enda líklega hægt að taka slatta af slíkum fyrir þessi 55-80 þúsund sem bíll kostar á mánuði) (drusluflokks-dagar mínir held ég að séu liðnir).

En það er vissulega ekki spennandi tilhuxun að standa í bílakaupum blankur þegar vextir og bensínverð hafa aldrei verið hærri og gengið í niðursveiflu.

Sjónvarpið und ich

Gott dæmi um efnishyggni mína (eða skort þar á) er sjónvarpið mitt. Það var keypt fyrir mörgum mörgum árum (rétt áður en Elko opnaði og verð á sjónvarpstækjum á Íslandi lækkaði um þriðjung) og var á ágætu verði á þess tíma mælikvarða, með skarpa og góða mynd - af ofurmerkinu Sonic.

Svo kom að því að ég gafst upp á að nota fermingargræjurnar með lausum ferðageislaspilara sem stofugræjur og ákvað að skella mér á heimabíókerfi, enda engin ástæða til annars ef maður var á annað borð að fara að kaupa magnara, geisladiskaspilara og hátalara. Hins vegar var sjónvarpið enn í fullu fjöri og ég var því í mörg ár með heimabíókerfi með hátölurum sem virkuðu mun stærri en 21" sjónvarpið mitt (og væri í raun enn að nota það kerfi ef ég hefði tekið það með mér út).

Ég ákvað að taka sjónvarpið með mér til Danmerkur, enda engin ástæða til að vera að kaupa sér annað lítið tæki hérna úti. Það var miklu frekar inni í myndinni að kaupa flottara tæki hérna úti og skilja garminn bara eftir.

En það er enn ekkert að tækinu (þótt 3-takkinn á fjarstýringunni sé stundum lengi að taka við sér) (veit ekki af hverju) og ef eitthvað er myndi ég frekar vilja minnka sjónvarpsgláp mitt í framtíðinni en hitt - þannig að það væri t.d. mun meira freistandi að taka andvirði nýs tækis og kaupa fyrir það flottan sófa, enda miklu meira sósíal fjárfesting.

Svona hygge, þið vitið.

Hins vegar er ég búinn að sjá að í flatsjónvörpum eru hérlend tæki 30-45% ódýrari en sömu gripir heima og þykist vita að fljótlega eftir að maður verður farinn að fá tekjur aftur yrði freistandi að skipta gamla tækinu út. Þannig að ég neita því ekki að gjóa augum á sjónvarpstækjaauglýsingar og -umsagnir.

Veit ekki hvað þessar vangaveltur allar segja um mína efnishyggni, það er kannski voðalega danskt að velta sér upp úr verðum og prósentum - í stað þess að skella flottasta tækinu á Vísa-rað og láta málin bara reddast.


< Fyrri færsla:
Ah búi ITU?
Næsta færsla: >
Streita í sjónmáli
 


Athugasemdir (2)

1.

Alex reit 22. júní 2006:

Vantar ekki h í fyrirsögnina!

2.

Þórarinn sjálfur reit 22. júní 2006:

Ekki lengur :)

Takk.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry