Nornir á bálið

Ég held ég fari rétt með að Sankt Hans sé danska útgáfan af sumarsólstöðuhátíðunum sem hafa fylgt mannkyni frá örófi alda (sbr. sænska midsommarfest og Jónsmessuna á Íslandi). Enda mun Hans vera dönskun á nafni Jóhannesar skírara, á sama hátt og Jón á íslensku.

Þá er hér hefð fyrir því að brenna brennur út um allar trissur og á þeim nornaígildi.

Þegar ég upplifði þetta í fyrsta sinn í fyrra þótti mér allt að því óþægilegt (og klárlega óviðeigandi) að horfa upp á gínuna í rósótta sumarkjólnum, með skuplu á höfðinu og í bleikum uppþvottahönskum fyrst breytast í skorstein sem safnaði reyknum undir pilsið og út um hálsmálið, til þess síðar að bresta í bál og falla í köstinn við lófaklapp viðstaddra.

Nornabrennur miðalda komu vissulega upp í hugann.

En þegar þetta barst í tal hér á kontórnum fyrir nokkru tilkynnti Emilie mér að ég gæti kannski talað illa um margt í dönsku samfélagi og dönskum kúltúr, en mér væri hollast að láta eiga sig að svína til Skt. Hans.

Það er sem sé ekki verið að drepa nornir með táknrænum hætti með því að brenna þær, heldur að gera þeim kleift að fljúga frjálsar að nornafjallinu (hafi ég skilið þetta rétt). Og þetta sé alls ekki kvenniðurlægjandi heldur þvert á móti gríðarlega feminískt og víðáttuvænt.

Ég ákvað að ræða þetta ekkert frekar, en ég er ekki alveg að kaupa þetta.

Þó ekki sé nema vegna þess að ég veit að það eru engin fjöll í Danmörku.

En spáin fyrir kvöldið er góð og við ætlum nokkur á kollegíganginum að taka okkur saman og grilla í garðinum. Svo er spurning hvert maður fer til að fylgjast með nornum brenndum frelsuðum.

Uppfært: Eftir smá grúsk sýnist mér flestar veflægar heimildir vera á því að nornirnar séu brenndar sem táknmynd illsku og sendar til Bloksbjerg, sem mun vera í Þýskalandi, þar sem þær halda fagfundi með djöflinum. Veit samt ekki hvort ég legg í að ræða þetta nánar við E. þegar hún skilar sér frá London.

UT bransinn upp til handa og fóta

Fagaðilar í upplýsingatæknibransanum danska virðast ekki vera að kaupa rökin fyrir því að ITU skuli sameinast KU. Í leiðara Computerworld frá í morgun er ritstjórinn allt að því herskár.

Í sama blaði er líka sagt frá því að "Væksthuset 5te" (sem er það sem í minni barnæsku kallaðist líklega iðngarðar, þ.e. "gróðurhús" fyrir ný fyrirtæki) sé gersamlega búið að sprengja af sér 5. hæðina hérna í ITU og sé búið að leigja 9.000 fermetra af tómum byggingum kaupmannahafnarháskóla hérna steinsnar frá (gamla KUA, ljótar og drungalegar byggingar frá áttunda áratugnum).

Þetta er nefnt sem dæmi um nýþenkingu tengda ITU og jafnvel spurt hvort ekki væri frekar ástæða til að gleypingin yrði á hinn bóginn; gamla risaeðlan yfirtekin af startöpp-skólanum.

Þannig að það er kannski von til að lengist aðeins í snörunni hjá ITU.


< Fyrri færsla:
Streita í sjónmáli
Næsta færsla: >
Tre døgns rapport
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 23. júní 2006:

Vilt þú ekki bara brenna karlkyns gínu í kvöld, svona til að minnast þeirrar staðreyndar að á sínum tíma voru mun fleiri karlar en konur brenndir fyrir galdra og djöflakukl á Íslandi ef mig misminnir ekki.
Hver veit, þú gætir kannski startað trendi...!

2.

Þórarinn sjálfur reit 23. júní 2006:

Þar held ég að þú hafir rétt fyrir þér -og ég ætti að vita það, enda skrifaði ég víðfræga heimildarritgerð um nornaofsóknir miðalda í MA.

Þótt skömm sé frá að segja held ég að ég muni engar gínur brenna í kvöld. Eftir grillið með stelpunum og smá öldrykkju, tónlistarhlustun, snakk og meira öl nenni ég eiginlega ekki af stað út...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry