Streita í sjónmáli

Eftir næstu viku verða sléttir tveir mánuðir þar til við eigum að skila lokaverkefninu. Af þeim tveimur mánuðum fara tvær vikur í frí, þannig að nú eigum við af stærðargráðunni 7 vinnuvikur eftir.

Það þýðir líka að eftir næstu viku verðum við búin að vera í 5 mánuði að vinna í verkefninu án þess að vera komin með neinn texta í endanlegu skýrsluna.

Stærstu hluti tímans hefur farið í að afmarka verkefnið og prófa okkur áfram við tilraunaumhverfið sem við erum að nota. Þar hefur ítrekað komið fyrir að eftir að hafa tekið nokkra vinnudaga eða jafnvel vinnuviku í að vinna úr hugmynd og búa til frumgerð kemur í ljós að hugmyndirnar þarf að endurskoða og byrja smíðina aftur.

Og eins og í allri forritun gerir maður sér ekki almennilega grein fyrir hvaða viðfangsefni þarf að leysa fyrr en maður rekst á þau og þá tekur oft mun lengri tíma að leysa þau heldur en ef þau hefðu verið þekkt allan tíman og maður losnað við að þurfa að endurskrifa það sem þegar var komið.

Upphaflega hugmyndin var að taka ca. þriðjung af skýrslunni í teoríu, þriðjung í okkar tilraunir og þriðjung í koncept-vinnu (þ.e. vangaveltur um hvar hægt væri að nota tæknina, byggt á því sem við höfðum lært á tilraununum og lestri teoríunnar).

Ég er hins vegar orðinn efins um að þau hlutföll haldist, a.m.k. eigum við eftir að taka drjúgan tíma í að skýra (eða hreinlega búa til) teoretískar undirstöður undir verkefnið og auðvitað að vinna úr þeim tilraunum sem við ætlum að taka næstu viku í að framkvæma...

A.m.k. er ég orðinn efins um að 13 einkunnin sem stefnt var að sé lengur raunhæf (hafi hún einhverntíman verið það).

Að læra aftur að lesa

Í gær og í dag er ég búinn að vera að lesa The Humane Interface eftir Jef Raskin (aðalhönnuð upphaflega Makkaviðmótsins).

Það fyrsta sem ég tók eftir er hvað það er langt síðan ég hef lesið svona fræðibók. Undanfarið hefur maður aðallega lesið styttri greinar og veftexta og það þarf æfingu til að halda einbeitingunni.

Ástæðan fyrir því að við höfum hugsað okkur að styðjast við Raskin eru hugmyndir hans um zooming-interface, og grunnurinn í súmm tilraunum okkar er einmitt byggður á kóða frá syni hans, Aza Raskin, sem var búinn til sem demó um hugmyndir Jefs.

Fyrstu kaflarnir eru vissulega áhugaverðir varðandi grunneiningar samskipta við tölvur en það pirrar mann örlítið að geta ekki nýtt þá speki beint á það sem við erum að gera. (Við erum ekki í beinni viðmótshönnun, heldur frekar að skoða mjög einangraðan þátt sem síðar meir má sjá fyrir sér að verði fléttaður inn í viðmótshönnun).

Á hinn bóginn kann ég heldur ekki við að stökkva beint inn í kaflana sem fjalla eingöngu um kosti súmms, heldur reyni að setja mig inn í grunnforsendurnar fyrst.

En þetta útheimtir klárlega örlítinn sjálfsaga.

Streiti streit

Þótt ég sé ekki enn farinn að stressa mig mikið yfir verkefninu svona dagligdags hef ég fundið aðeins fyrir fyrstu einkennum uppsafnaðrar streitu undanfarna daga (eða nætur); svefntruflunum.

Enn sem komið er eru þær af skárri tegundinni; að maður sefur laust og vaknar aðeins á undan vekjaraklukkunni. Hin tegundin; að liggja andvaka og bylta sér fram eftir nóttu er meira slítandi.

En það er ekki annað að gera en vera duglegur á daginn, taka góð hlé (sem hefur svo sem ekki skort hingað til) og muna að fara út að trimma eða hjóla (verst að HM gefur svo góða afsökun fyrir því að fara ekki alveg strax út...)

Það eru fjörugar vikur framundan.


< Fyrri færsla:
Af íslenskri efnishyggni
Næsta færsla: >
Nornir á bálið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry