Kvartað yfir regnskorti

Daginn í dag voru veðurfræðingarnir búnir að ákveða að taka í að vökva gróðurinn og höfðu lofað eldingum og sjói.

Ég var við öllu búinn og pakkaði regnhlíf og regnjakka í bakpokann áður en ég fór í skólann.

Að því frátöldu að ég heyrði í einni þrumu í fjarska og að það gekk á með nokkrum smáskúrum í dag missti ég algerlega af þessu öllu saman.

Í veðurfréttunum var sýnt hvernig skýfallið byrjaði á að gegnbleyta tjaldbúðirnar á Hróarskeldu til þess svo að hringsóla um Sjáland og valda flóðum og djöfulgangi með 16 þúsund mældum eldingum. En krækja mjög snyrtilega hjá Amager og nágrenni.

(Ef úrhellið hefði komið hingað í dag væri ég örugglega núna að bölsóttast yfir hvað veðrið væri ömurlegt.)

Þrátt fyrir að vera hálfaumur á hné ákvað ég svo að fara aðeins út að trimma þegar ég kom heim. Fór aðeins styttri hring og tók það rólega. Hnéð var ekki til neinna vandræða, enda held ég að þetta séu bara eymsli í einhverjum vöðvafestum sem ég hef ofreynt í burðinum síðustu helgi.

Það var hins vegar svo heitt og rakt í lofti að ég var orðinn rennsveittur eftir tvo kílómetra eða svo.

Af Hróa og rokkleysi

Talandi um Hróarskeldu, ef ég væri meiri rokkari væri ég náttúrulega löngu búinn að útvega tjald og finna mér tjaldbúðir, t.d. með því að bæta enn einu tjaldinu í safnið sem Bragi tók með sér í gær.

Ég ætla hins vegar að taka gamalmennapakkann á þetta; verð í samfloti með Huld og Sigga og deili með þeim bílaleigubíl svo við snöttum á milli og sofum í okkar eigins rúmum og getum farið í heita sturtu á morgnana.

Ekki að hitaskortur stefni í að verða vandamál, langtímaspáin gerir ráð fyrir 25 stigum og sól um helgina.


< Fyrri færsla:
Það rignir kortum...
Næsta færsla: >
Nokkrar nýjar myndir
 


Athugasemdir (3)

1.

Óskar Örn reit 26. júní 2006:

Ætlaði að fara að tauta um hvað mér þætti þessi nálgun á ´skelduna lítið rokkogról þegar ég áttaði mig á því að sennilega myndi ég sjálfur taka "gamalmennapakkann" á þetta ef byðist frekar en að norpa í tjaldi og bursta tennurnar upp úr e-u ferðasalerni við hliðina á varameðstjórnanda Jótlandsdeildar Hell´s Angels.
Helvíti er orðið langt síðan maður var í Húnaveri....!!

2.

Þórarinn sjálfur reit 27. júní 2006:

Við erum að verða gamlir.

Þú þó sýnu eldri ;)

3.

elin reit 29. júní 2006:

Ég kom mínu tjaldi upp á starfsmannasvæðinu sem er voða rólegt og gott!! Flyt þangað búferlum í dag og vona bara að tjaldið standi ennþá!!

Sjáumst kannski! Ég verð pottþétt með hinum gamalmennunum á Dylan á föstudaginn.

Party on....hehehe

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry