Horft til veðurs

Í gær var eiginlega bara napurt hérna í Köben; skýjað, strekkingur og ekki nema 12-14 stig.

Mér fannst eiginlega hlýrra um kvöldið þegar ég heimsótti Hönnu Birnu, Jesper og Sif. Sú stutta var ekki sérlega hamingjusöm með gestaganginn og faldi sig bak við foreldra sína til skiptis. Þegar átti svo að svæfa hana tók hún hressilega "terrible two's" skorpu og það endaði með að hún sofnaði í fanginu á pabba sínum í sófanum.

En annars er spáin fyrir helgina prýðileg.

Spá næstu daga

Nú er bara spurningin hvernig maður græjar sig. Dagarnir verða klárlega stuttbuxur og bolur, en á kvöldin er kannski rétt að hafa með sér gallabuxur og hlýrri peysu. Þannig að það þarf að finna jafnvægi milli þess að vera með aukafötin með sér í axlartöskunni og þess að geyma í bílnum. (Mér segir svo hugur að það verði kannski drjúgur spölur frá tónleikasvæðinu að bílastæðinu.)

Regnföt og stígvél sýnist mér hins vegar óhætt að skilja eftir.

En þetta verður allt frumreynt í kvöld. Þá munu Sigur Rós, Guns 'n' Roses og Clap Your Hands Say Yeah slást um athyglina.

Prógrammið á föstudag og sunnudag er svo líka pakkað, en laugardagurinn lítur ekkert gríðarlega spennandi út - ég meina... Kanye West?

En kannski maður geti þá leyft sér að taka laugardagskvöldið í að þvælast um svæðið og upplifa stemmarann.

Var að fá ábendingu um að ég þekki einn í Melk sem treður upp á morgun (trompetleikarann Tav) - spurning hvort maður verður kominn á svæðið í tæka tíð...

Þetta ætti allavega að verða stuð.


< Fyrri færsla:
Nokkrar nýjar myndir
Næsta færsla: >
Nokkuð merkilegur andskoti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry