Fótbolti og sólbruni

Hróarskeldupistillinn bíður aðeins, en ég reyni þess í stað að tjá mig aðeins um fótbolta.

Ég missti af leikjum föstudagsins, en miðað við lýsingu sör Robson klikkaði þjálfari minna manna á því að ætla að halda fengnum hlut á móti Þjóðverjunum og skipta Riquelme út.

Það að Ítalirnir skyldu vinna kom líklega engum á óvart.

Við sáum svo seinni hálfleik í England - Portúgal og fyrri hálfleik framlengingarinnar, en þurftum að koma okkur til baka til að ná Primal Scream áður en kom að vítaspyrnukeppninni.

Hvorugt liðið var að gera neitt af viti, en ég verð að viðurkenna að ég var ekki alveg að fatta fyrir hvað Rooney var rekinn af velli.

Við vorum á því að ef Englendingarnir myndu falla út þyrftu þeir á blóraböggli að halda. Ég var helst á því að það yrði dómarinn, varla færu þeir að fara eins með Rooney og þeir gerðu við Beckham um árið.

Það reyndist rétt (en um leið rangt). Maðurinn sem á sök á því að England er fallið úr keppni og missti þar með af titlinum sem það átti heimtingu á er... Christiano Ronaldo.

Með því að hlaupa þrjátíu metra sprett og láta Rooney hrinda sér og nást svo á mynd blikkandi varamannabekkinn hefur hann gerst sekur um lúalegustu framkomu íþróttamanns sem um getur.

Ég skal verða manna fyrstur að viðurkenna að Ronaldo er vælinn, en kommon...

Heitir þetta ekki að hengja bakara fyrir smið (eða Portúgala fyrir Svía)?

Við sáum svo síðari hálfleik Frakka og Brasilíumanna. Ég hef nú ekki verið sérlega hrifin af því sem ég hef séð til Frakkanna, en þeir slógu Spánverjana verðskuldað út með öflugum varnarleik.

Þeir fengu hins vegar ótal mörg rokkstig hjá mér fyrir að framkvæma þrjár skiptingar eftir að hafa komist 1-0 yfir á móti Brasilíumönnum; þrír fremstu menn fóru út fyrir þrjá úthvílda framherja. Meira að segja þegar 5 mínútur voru eftir var Henry skipt út af fyrir Saha.

Brasilíumenn áttu hins vegar varla skot á mark fyrr en síðasta kortérið og það verður að viðurkennast að Frakkar unnu verðskuldað.

Ég veit ekki hvort verður illskárra að fá Þjóðverja eða Ítali í úrslit, hins vegar verður fróðlegt að sjá Frakkland - Portúgal.

Amm.

Sól og sviti

Sólin skein hressilega á Hróarskeldu nærri alla helgina (með nokkrum léttum skýjum á föstudeginum). Sunnudagurinn toppaði hins vegar allt með steikjandi hita, glampandi sól og ryki yfir öllu. Örlítil gola bjargaði þó deginum.

Ég er búinn að reyna að smyrja mig hressilega með sólvörn (sem hefur einhverra hluta vegna þó aðallega endað í skeggbroddunum), enda stefnan meira á að vera "bara útitekinn" frekar en "ibísískt strandljón".

Stemmningin hefur því verið að nota heldur of mikla vörn en of litla.

Eitthvað hefur smurningin þó örlítið brugðist í gær, því þegar ég kom heim um kvöldið var ég með tvo lófastóra rauða bletti þar sem eitthvað hefur vantað upp á vörnina.

Mér sýnist þó að þetta muni sleppa með roða (og eflaust smá flögnun), enda hefur mig ekkert sviðið í þetta í dag.

En það eru tæmdar nokkrar túpur af rakakremi á dag í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn flögnun.

Það verður annars fróðlegt að sjá hvernig neðra andlitið á mér verður á litinn þegar ég hef mig í að raka mig. Spurning hversu flekkóttur ég verð.

Hér er svo búið að vera vel heitt í allan dag og líkt og venjulega ólíft á skrifstofunni okkar eftir klukkan þrjú.

Við erum smám saman að komast í gang með skriftirnar og rúmlega hálfnuð með prófanirnar, en þurfum líklega fljótlega að fara að venja okkur á að færa okkur yfir í skuggahlið skólans seinnipartinn til að geta unnið þar.

Í augnablikinu sit ég á stuttbuxunum, ber að ofan, með opinn glugga, hálftíma fyrir miðnætti og svitna. (Skv. vef veðurstofunnar dönsku voru 19,9°C á Kastrup klukkan 23:30).

Verst að Lindor súkkulaðikúlurnar mínar eru hálfbráðnaðar uppi í hillu. Það eru örlög ill.

Sendi aftur samúðarkveðjur til London þar sem hitinn liggur í rúmum 30 stigum (hér er hann þó bara í rúmum 25).

Gert er ráð fyrir áframhaldandi sumri.


< Fyrri færsla:
Nokkuð merkilegur andskoti
Næsta færsla: >
Þórarinsdóttir er fædd
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry