Ákvörðun liggur fyrir

Mér finnst ég enn eiga eftir að gefa Kaupmannahöfn almennilegan séns og upplifa margt af því sem borgin hefur upp á að bjóða. Ég hef ekki verið eins duglegur og ég gæti verið að njóta kúltúrsins og þeirra möguleika sem ekki bjóðast heima.

Hér er líka góður slatti af skemmtilegu fólki og brjáluð uppsveifla í gangi á upplýsingatæknitengda vinnumarkaðnum. Þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að finna starf við hæfi, þegar maður er kominn með mastersgráðuna og þó það vald á dönskunni sem ég er kominn með.

Hins vegar veit ég ekki hvort ég yrði endilega duglegri að upplifa Köben sem vinnumaur heldur en sem námsmaður, a.m.k. get ég ekki með neinni sannfæringu haldið því fram að skólinn hafi verið úr hófi tímafrekur - á heildina hefur álagið verið ósköp svipað og á vinnumarkaðinumm, en ef eitthvað er hefur maður meira tímafrelsi í skóla.

Ég held að rótin að upplifanaskortinum liggi í því að ég er ekki nógu duglegur að koma mér einn af stað að upplifa borgina, t.d. hef ég ekki verið duglegur við að fara einn í Tívolí, dýragarðinn eða á tónleika.

Þótt ég eigi ágæta vini og kunningja hérna úti eru ekki margir sem ég hringi í þegar mér leiðist og dreg með út á kaffihús eða í bíó.

Líklega væri staðan öðru vísi ef ég byggi með einhverjum; kærustu eða einhverju systkina minna.

Og þótt þetta hafi verið prýðileg tvö ár hérna úti, held ég að ég nenni ekki að fara að búa einn þriðja veturinn (og nenni heldur ekki að taka sénsinn á einhverju kommúnulífi).

Nú held ég heim

Þannig að ég er á leið heim til Íslands.

Reyndar veit ég ekki betur en ég sé að fara að búa einn heima á Íslandi og að tveir af mínum helstu "hringja í þegar mér leiðist"-kontöktum verði í útlöndum næsta vetur.

En á móti kemur að þar er stærra kunningjanet (og ég get abbast upp á systkinin þar til þau gefast endanlega upp á mér).

Þannig að ég er búinn að láta leigjandann minn vita að húsaleigunni sé sagt upp frá 1. október og geri ráð fyrir að flytja heim einhverntíman í byrjun október (svolítið háð því hvernig ég kem undan lokaspretti lokaverkefnisins og lokaprófinu).

Næsta skref er svo að reyna að finna sér djobb í borginni.

Þar eru nokkrir kostir til skoðunar og ég reyni örugglega að fara í nokkur viðtöl þegar ég verð næst í borginni, í fyrstu viku ágúst.

En svo er aldrei að vita nema maður taki dvöl í útlandinu bara seinna, tala nú ekki um ef maður finndi stúlkukind sem langaði að prófa að búa í Köben og jafnvel danskt fyrirtæki í íslenskri eigu (þannig að maður þurfi ekkert endilega að fara í viðtöl til Köben). En það er síðari tíma mál.

Nú er hins vegar óhætt að veðja á að á sama tíma að ári muni ég varla býsnast yfir sumarhitunum, heldur þvert á móti...

Glæpaaldan

Og þegar danskurinn er farinn að taka upp þann ósið frá Ameríku að skjóta á fólk og fénað með vélbyssum úr bílum á ferð er kannski réttast að koma sér heim þangað sem menn vinna aðallega skaða hver á öðrum með hnífum og vínflöskum.


< Fyrri færsla:
Svotil næstum búin...
Næsta færsla: >
Valið og hafnað
 


Athugasemdir (3)

1.

Jón Heiðar reit 08. júlí 2006:

Gaman að fá þig heim.

2.

Hjörtur reit 08. júlí 2006:

ljótt að missa þig úr landi...hver á nú að sjá um pókerkvöldin??? :D

3.

Alex reit 08. júlí 2006:

Hlakka til að fá þig heim.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry