Fjögurra ára hlé

Þetta var hörkuleikur, sótt á báða bóga og þótt ég hafi talað illa um Ítali fagnaði ég þegar þeir jöfnuðu - aðallega til að halda spennunni í leiknum.

Að frátöldum síðustu tíu mínutunum í fyrri hálfleik sóttu bæði liðin af krafti fyrsta klukkutímann, síðasta hálftímann héldu þau blessunarlega áfram að sækja, en af miklu meiri varkárni. Eins og sannaðist í fyrri hálfleik var það eiginlega bara þegar bakverðirnir komu með upp kantana að varnirnar opnuðust í venjulegu spili og því voru litlar líkur á marki meðan bara var sótt á sóknarmönnunum.

Í framlengingunni voru bæði lið búin á því, Ítalirnir þó sýnu meira.

Ég veit ekki hversu mikið snillingarnir á Sýn gátu tjáð sig um atvikið þegar Zidane var rekinn af velli, en dönsku lýsendurnir (sem voru á staðnum) ræddu það í þaula að fyrst þegar Buffon hljóp að aðstoðardómaranum hristi hann höfuðið, síðan var atvikið sýnt á risaskjánum á vellinum og eftir það virtist aðstoðardómarinn kominn með skoðun á málinu.

En þvílíkur aulaskapur hjá Zidane!

Og þvílíkur blettur á því sem stefndi vel í að vera maður-leiksins frammistaða.

Svolítið undarlegt að hugsa til þess að að viku liðinni getur vel verið að helmingur heimsmeistaranna finni sjálfa sig á brunaútsölu, fala til hæstbjóðanda, ef liðin þeirra verða dæmd niður um deild(ir).

Popppunktur

Í gær horfði ég á fyrri hálfleikinn hérna heima (eftir að hafa varið fyrripart dags í skólanum við skipulagningu textaskrifa) og hjólaði svo upp á Esbern Snares Gade í hálfleik.

Þegar þangað kom (með millilendingu í sjoppu með miklu betra bjórúrval en ég hef séð í nokkru íslensku ríki) var verið að skora annað markið og spennan í leiknum í raun búin.

Eftir leikinn var hins vegar mun meiri spenna í Popppunktskeppni, þar til liðið mitt (með Ingu Rún og Jóa) vann sannfærandi sigur þar sem sögufrægur flutningur á Póstinum Páli kom við sögu.

Gærdagurinn var annars notalega svalur, með 23-25 gráður og golu. Ég hjólaði á stuttermabolnum upp á Vesterbro um kl. 22 og hefði alveg getað verið á bolnum þegar ég hjólaði til baka um hálf-tvö.

Pikknik i parken

Í dag hitti ég svo Jónínu, Sigga, Huld, Ágúst og Ilmi með krakkastóðið allt í Lergravsparken (aðeins of hvasst á ströndinni) og við dunduðum okkur á leikvellinum fram eftir degi í prýðisveðri.

Gleymdi að taka myndir.

Og svo er bara að bretta upp ermar í fyrramálið og ná fljúgandi starti í verkefnaskrifum.


< Fyrri færsla:
Valið og hafnað
Næsta færsla: >
Krambúleraður á stórutá
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry