Krambúleraður á stórutá

Siggi boðaði í fótbolta með hópi Íslendinga á Eyrnasundskollegíinu og nágrenni seinnipartinn í dag. Við spiluðum á prýðilegum grasvelli í Kløvermarken og mæting sló víst fyrri met; 5 á móti 5 (og svo bættust tveir útlendingar við sem voru að væbblast á kantinum).

Þetta er í fyrsta skipti í a.m.k. 20 ár að ég spila fótbolta með rangstöðureglum (lauslega túlkaðri rangstöðu eins og það var kallað). Snemma leiks fékk ég sendingu inn fyrir og skoraði með hnitmiðuðu skoti á nærstöng, en rangstöðu var krafist og markið dæmt af.

Ég kunni ekki við að malda í móinn, enda getur verið að ég hafi verið aðeins of ákafur af stað (þó ég væri meðvitaður um að ég þyrfti að passa mig á rangstöðunni) en það var a.m.k. ekki þannig að ég væri að hanga einn frammi (sem er víst ástæðan fyrir að rangstaðan var tekin upp í þessum hóp).

Á mínum (mun) yngri árum æfði ég fótbolta með "alvöru" reglum. En þar sem við þessir lélegri vorum yfirleitt geymdir í vörninni (ásamt kannski einum frambærilegum svíper) fólust kynni mín af rangstöðureglunni aðallega í því að standa á miðlínunni með hinum varnarmönnunum og fylgjast með í t.d. 24-0 sigrinum á Hugin Seyðisfirði.

Minn besti leikur á ferlinum var reyndar á hægri kantinum í æfingaleik gegn KA (minnir að ég hafi líklega verið bakvörður en ákvað sjálfur að styðja við sóknina). Eina opinbera mark ferilsins skoraði ég svo með B-liðinu í 7 manna keppni á Breiðdalsvík þar sem þokan var svo þétt að ég var líklega eini maðurinn í liðinu sem vissi hver hafði skoraði.

Og ég minnist ekki ógrátandi á eina spjald ferilsins; gult spjald fyrir háskaleik gegn Sjonna Litla frá Reyðarfirði, hann var ekki kallaður litli fyrir ekki neitt enda náði hann mér ekki nema rétt rúmlega í mjöðm og því erfitt annað en að fara með lappirnar nálægt bringunni á honum.

En það er önnur saga.

Eftir að markið var dæmt af gerði ég svo til ekkert af viti það sem eftir lifði sparks. Einna helst að ég stæði mig vel í að sækja boltann þegar hann fór aftur fyrir...

Sendingar fóru út í bláinn, sóknarmenn snýttu sér á varnartilburðum mínum og skot reyndust máttlaus.

Leikurinn var annars í jafnvægi framan af, en eftir að Siggi komst í gang opnuðust allar gáttir og við vorum hressilega flengdir.

Ég kom þó ekki hnjasklaus heim, enda var stigið hressilega á mig í glænýjum takkaskóm með kviðristutökkunum frægu sem sumir vilja meina að séu hluti ástæðunnar fyrir því að hálft enska landsliðið hefur ristarbrotnað.

Þótt þetta væri helvíti sárt og ég hafi haltrað fyrst á eftir vissi ég strax að það hafði ekkert brotnað eða tognað, en að ég væri líklega bæði skrámaður og marinn á stórutá hægri fótar.

Karlmennsku mína setti þó heldur ofan þegar heim kom og ég bjóst við að draga blóðugan sokk upp úr skónum. Ekki dropi af blóði, en ég reyndist nokkuð hressilega skrámaður og í þessum rituðum orðum er marið að byrja að koma fram.

Fótbolti er skemmtilegur!

Björtu hliðarnar hljóta líka að vera þær að ég þarf virkilega að leggja mig fram ætli ég að vera lélegri næst þegar ég spila.


< Fyrri færsla:
Fjögurra ára hlé
Næsta færsla: >
Til lands heimsmeistaranna?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry