Til lands heimsmeistaranna?

Í gær sat ég við til klukkan rétt rúmlega 6, skrifandi kafla um niðurstöðurnar úr tilraununum okkar.

Í dag hélt ég svo áfram, henti þriðjungnum af því sem ég skrifaði í gær (eftir að hafa fengið tölfræðilega bakþanka þegar ég var lagstur upp í rúm í gærkvöldi), breytti litunum á öllum gröfunum sem ég hafði unnið í gær og reyndi árangurslítið að finna aftur tölfræðikennslutextana sem ég hafði fundið og lesið á netinu í síðustu viku.

En nú er tölfræðikaflinn að mestu búinn og Emilie er á fullu í teoríukaflanum, þannig að blaðsíðurnar fara smám saman að ryðjast fram.

Í dag svaraði svo kennarinn okkar tölvupósti þar sem við höfðum beðið um stuttan fund í lok vikunnar. Hann játti því og lét okkur í leiðinni vita af því að hann hefði fengið möguleika á að bjóða okkur með sem þátttakendum á ráðstefnu um augnstýringar í Tórínó á Ítalíu. Hann gæti borgað fyrir okkur flug og einfalt hótel, en við þyrftum sjálf að borga fæði.

Ef við værum áhugasöm hefði hann hug á að við myndum sýna tilraunaumhverfið okkar á lokadegi ráðstefnunnar.

Eins og gefur að skilja kom þetta okkur í opna skjöldu og þótt við séum upp með okkur er hætt við að þessu fylgi visst stress. Ráðstefnan hefst nefnilega mánudaginn 4. sept. og við eigum að skila verkefninu okkar á föstudeginum 1. sept. Við gerum eiginlega fastlega ráð fyrir að keyra okkur út á lokasprettinum og það að undirbúa það efni sem við myndum sýna og undirbúa þetta allt saman yrði ekki til að minnka það álag.

Þetta rekst líka á við ferðalagahugmyndir okkar beggja (enda allt annað að fara í frí-ferðalag fljótlega eftir skil heldur en á ráðstefnu og eiga að sýna eitthvað fyrir helstu sérfræðinga heimsins á þessu sviði).

Hins vegar er þetta það gott boð að maður getur eiginlega ekki afþakkað það án ígrundunar.

En þar sem hvorugt okkar hefur huxað sér að hasla sér völl á sviði augnstýringa getum við kannski leyft okkur að íhuga það alvarlega að afþakka.

Þetta skýrist allt saman, en tilboðið bendir óneitanlega til þess að honum þyki eitthvað varið í það sem við erum að gera...


< Fyrri færsla:
Krambúleraður á stórutá
Næsta færsla: >
Mælt með Morrissey
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn Óskarsson reit 14. júlí 2006:

Í mínu fagi eru hverskonar presentationir og fyrirlestrar á fagráðstefnum líklega það annað mikilvægasta sem hægt er að smella á CV-ið sitt, næst á eftir birtum greinum í vísindatímaritum. Veit ekki hvort það sama gildir í þínum geira (enda löngu búinn að gefast upp á að skilja hvað þú gerir eiginlega....!) en ef svo er þá myndi ég ekki hika við að taka boðinu þó að það þýði tímabundna ofnotkun á koffíni og valíum undir það síðasta. Gæti komið sér mjög vel fyrir þig og myndir sjá eftir því að hafa sleppt þessu. Nú, og ef þú slærð ekki í gegn þarna þá kemur það þér vala í koll seinna því eins og þú segir sjálfur þá er þetta líklega ekki þit framtíðarfelt.
Sem sagt win-win staða eins og ég sé það, gamle ven!

2.

Óskar Örn reit 14. júlí 2006:

Annað: Rak augun í það að sameiginlegur kunningi okkar Sufjan Stevens spilar hér 16. og 17. nóv. Í tilefni stóryrða um að draga þig á kúltúrinn hér heima ef þú flyttist heim býð ég þér á Sufjan. Ef ég fæ sæmilega miða.
Morrissey verður hér í ágúst. Þú sást hann á Roskilde eller hur? Á maður að skella sér?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry