Mælt með Morrissey

Það er greinilega margt líkt með skyldum, því áður en ég sá athugasemd Óskars tvíburabróður míns var ég búinn að ákveða að við hæfi væri að nefna þessa fyrirhugðu tónleika Morrissey og frænda míns Sufjan Stefáns.

Ég er manna fyrstur til að viðurkenna að ég hef ekki fylgst neitt með nýja efninu frá Morrissey, en hafði þó rekið augun í að nýjasta platan hans hefur verið að fá mjög góða dóma í tónlistartímaritum.

Hins vegar þóttu mér tónleikarnir með honum á Hróarskeldu mikið afbragð, karlinn virtist í góðu formi - með skemmtilegt prógramm og gantaðist við áhorfendur og hljómsveitina milli laga. Ég get ekki tjáð mig um það hvað af sólóefninu hann var að taka (né hversu vel) en hann var duglegur við að krydda tónleikana með Smiths gullkornum, t.d. var Girlfriend in a coma virkilega flott.

Mér sýnist líka að allir þeir sem hafa bloggað eitthvað um tónleikana á Hróarskeldu hafi verið ánægðir með Morrissey (ef hann á annað borð er nefndur).

Ég get ekki útilokað að hann hafi verið í óvenjugóðu skapi í sólinni á Hróarskeldu og get því ekki lofað jafngóðum tónleikum í Höllinni, en tónlistin var prýðileg og fyrir þá sem eru (eða voru) harðir aðdáendur The Smiths er ekki spurning um að skella sér og fá sitthvað fyrir sinn snúð.

Sufjan frændi

Nýja platan með Sufjan er nýlega komin á eMusic.com, en því miður ekki niðurhalanleg hér í Danmörku (frekar en Illinois(e)) og varla þá annarsstaðar í Evrópu.

Illinois(e) hef ég hins vegar krækt mér í eftir krókaleiðum og þykir mikil snilld.

Það er því ekki spurning að þetta eru tónleikar sem mig langar á. Ég hef raunar hitt tónleikahaldarann (bæði á Hróarskeldu og spilað við hann fótbolta), en efast um að það dugi mér til að útvega mér miða undir borðið.

Sjáum hvað setur.


< Fyrri færsla:
Til lands heimsmeistaranna?
Næsta færsla: >
Tortryggjandi eigin sjálfsblekkingu
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry