Tortryggjandi eigin sjálfsblekkingu

Við E. lofuðum að vinna í lokaverkefninu sitt í hvoru lagi um helgina, enda fælist í því meiri sveigjanleiki en að vera að mæla okkur mót í skólanum.

Helgin byrjaði annars á rólegum nótum þegar ég fór heim til Jónínu og fjölskyldu í lok vinnudags og sat yfir Þorfinni vini mínum meðan höfuð fjölskyldunnar fylgdi heimasætunni í flug.

Við félagarnir horfðum á Spider Man, svo til hljóðlausa (enda hefur áhrifstónlistin mun meiri áhrif á litla sál en harðnaðan heimsborgarann) og með stífri hraðspólun yfir drungalegri senur og slagsmálaatriði.

Þannig að eftir stóð mikið af hljóðlausum samtölum og æfingar Spiderman við að uppgötva eigin hæfileika. Sá stutti lýsti því reglulega yfir að hann væri Spiderman, bretti upp á úlnliðinn og æfði sig í að skjóta þráðum í allar áttir auk þess að taka nokkrar pósur á stofuborðinu.

Það var með herkjum að ég gat stöðvað hann í því að sækja spidermanbúninginn á botni óhreinatauskörfunnar og troða í þvottavélina (sem raunar var full af óþurrkuðum þvotti).

Þegar kappinn var sofnaður (aftur) í sófanum spjölluðum við fullorðna fólkið um lífið og tilveruna áður en ég hjólaði heim í hlýrri sumarnóttinni.

Heimavinnandi úti í sólinni

Plan dagsins í dag var svo að taka dugnaðarskorpu fyrripartinn, fara svo út í sólina og gera kannski eitthvað í verkefninu um kvöldið - ef ég verðlaunaði mig ekki fyrir dugnaðinn og færi á jazzhátíð.

Það plan gekk ekki alveg eftir...

Fyrst var ég bæði lengi á fætur og í gang. Síðan las ég yfir eldri texta og kortlagði hvað þyrfti að gera (auk þess auðvitað að lesa samviskusamlega yfir allar bloggsíður, fréttasíður, boltaslúður og annað bráðnauðsynlegt). Dró svo fram A3 vatnslitablokkina sem hefur í gegnum tíðina reynst vel við að rissa upp beinagrindur að textum og hripaði hjá mér nokkur lykilatriði.

Og þá var bara allt í einu kominn hábjartur dagur, ekki ský á himni og mál að koma sér út úr húsi.

Ég mælti mér mót við Aðalstein og Gunni á kaffihúsi við Søerne, þaðan fórum við svo í Fælledparken með millilendingu í ísbúð og 7-11 (fyrirbyggjandi aðgerðir vegna þorsta). Steini dró fram manndrápsþeytidisk mikinn og tröllvaxinn meðan Gunnur einbeitti sér að því að passa að teppinu yrði ekki stolið meðan við reyndum að gera okkur merkilega.

Gríðarlúmskir sviptivindar í garðinum settu þó vissan svip á tilþrif okkar, auk þess sem diskurinn átti það til að skafa vænar flísar úr fingrum þegar honum var þeytt af stað.

Tilþrif dagsins voru þó þegar Steina tókst að kasta disknum í glæsilegum boga í sköflunginn á eldri konu sem kjagaði yfir mannlaust túnið með Netto-poka í sitthvorri hönd (ég átti aldrei möguleika á að ná "sendingunni").

Étt á Snares

Þaðan brunaði ég svo yfir á Vesterbro í pizzuveislu hjá Snara-genginu (áður Ege-systur) og örlítið meiri bjór.

Gestgjafar stefndu á tónleika Mezzoforte á Norðuratlantsbryggju, en á þá var orðið uppselt fyrr um daginn og því ljóst að ekki kæmust allir gestir með þangað.

Sjálfur notaði ég þetta sem afsökun fyrir því að hjóla heim á Amager og þóttist ætla að fara að vinna aðeins í verkefninu.

Það var hins vegar sjálfsblekking sem ég vissi vel að hvorki ég né aðrir myndu falla fyrir. En hún stuðlaði þó að því að ég væri kominn heim á siðsamlegum tíma (sem eykur líkur á að ég geti byrjað snemma á morgun) og mér gafst færi á að puðra aðeins í dagbókina (og þarf því ekki að gera það á morgun) (nema auðvitað mér detti eitthvað brennandi í hug).

Ég stend mig enn að því að langa að kaupa mér sjónvarp áður en ég kem heim (og er búinn að vera að skoða þau aðeins á vefnum í kvöld) - sem minnir á dagbókarraus um framtíð stafræns sjónvarps á Íslandi sem ég er búinn að ganga með í kollinum lengi og þarf að fara að setja niður í gagnagrunn.

En það gerist víst varla í kvöld.


< Fyrri færsla:
Mælt með Morrissey
Næsta færsla: >
Skreyttur stolnum fjöðrum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry