Streita í sólinni

Gærdagurinn (sunnudagur) fór í lítið nema samviskubit. Sat við tölvuna stærstan hluta dags, en afraksturinn varð ekki nema á þriðju síðu. Seinnipartinn skellti ég mér svo í bikiníið og lagðist út á teppi í garðinum með reyfara sem ég er með í láni frá Jónínu.

Eftir kvöldsnarlið hjólaði ég svo aðeins yfir á Íslands Bryggju og stúderaði mannlífið auk þess að laumuhlusta aðeins á jazz.

Annars hefur aðsókn mín á jazzhátíðina verið í skötulíki þrátt fyrir fögur fyrirheit. Tek þetta bara einhvern tíman almennilega sem túristi þegar ég er ekki að vinna lokaverkefni.

Létt stress

Ónefndur meðlimur í lokaverkefnishópnum situr núna sveitt yfir að skrifa "previous works" kaflann og er létt að tapa sér yfir umfanginu og því hversu margir textar eru til um skyld efni sem við höfum ekki lesið enn (og munum þar af leiðandi varla gera úr þessu).

Ég reyni að halda uppi kúlinu í hópnum (þótt það sé erfitt eftir hádegi þegar hitamollan leggst yfir skrifstofuna).

Nú er rétt rúmlega vika þar til ég fer heim til Íslands í tveggja vikna frí (líklegast þó með eitthvað lesefni með mér). Fyrir þann tíma ætlum við að vera búin að grófvinna sem stærstan hluta texta og senda kennaranum okkar. Svo komum við úthvíld í þriggja vikna lokatörn og hina óhjákvæmilegu barma taugaáfalla.

Ég ætti auðvitað ekki að gefa neitt út um þetta opinberlega, en nú held ég að kominn sé tími til að ég fari að vakna aðeins fyrr á morgnana - taka góðar skorpur áður en fer að hitna um of á kontórnum og fara svo heim á skikkanlegum tíma með góðri samvisku.

Fróðlegt að sjá hversu glæsilega þau plön munu klikka...


< Fyrri færsla:
Skreyttur stolnum fjöðrum
Næsta færsla: >
Heimabíó fyrir atvinnumenn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry