Friðrika er heppin

Þegar ég kíkti á Hotmail í dag blikkaði auglýsing frá Póstinum í hægri spássíunni þess efnis að Friðrika væri heppin.

Friðrika er heppin.
Maðurinn hennar sendi henni Hugskeyti og sagðist elska hana.

Sendu Hugskeyti

Þetta þykir mér skrýtin auglýsing.

Ég tek það fram að ég þekki ekki Friðriku persónulega, en óska henni til hamingju með hugskeytið sem hún fékk frá manninum sínum.

Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort "heppin" sé rétta lýsingarorðið. Ég hefði frekar haldið að "glöð", "ánægð", "lukkuleg", "hamingjusöm" eða jafnvel "tortryggin" hefði átt betur við.

Heppin?

Bendir heppni ekki til þess að maður hafi haft einhvernvegin betur í glímu við líkindareikning?

Í hverju felst heppni Friðriku? Í því að hafa krækt í svona indælan mann? Í því að hann skuli lox hafa slysast til að gera eitthvað rétt? Í því að Pósturinn týndi ekki skeytinu áður en það barst á leiðarenda?

Eða fólst í skeytinu einhver galdur sem gerir að eftir að hafa fengið það varð hún heppnari en áður (svona almennt)?

Ég veit ekki.

Svo finnst mér þetta nýja vörumerki Hugskeyti óttalega klént eitthvað. Sök sér ef þetta væri brilljant ný þjónusta sem væri spontant og bærist um leið og manni dytti í hug, en nei þetta er bara tilraun til að poppa upp gömlu myndskreyttu skeytin, borin út þrisvar á dag á höfuðborgarsvæðinu og sjaldnar til sveita.

Hálfgert frat.

En ég vona svo sannarlega að Friðrika verði áfram heppin.


< Fyrri færsla:
Breiðasta vefsíða heims?
Næsta færsla: >
Steinrotaður á fyrsta
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry