Kólnar í kolunum

Ég veit ekki nákvæmlega hversu heitt var hér í Köben í dag, en skv. veðurfréttunum fór hitinn í 33 gráður á nokkrum stöðum á Jótlandi og í einhverjar 29 gráður hér á stórkaupinhafnarsvæðinu.

Í dag fór ég til klippingamanns sem var sólarmegin í tilverunni, eða a.m.k. sólarmegin í götunni og honum var greinilega svolítið heitt greyinu. Sjálfur sat ég í mínum kvartbuxum undir klippislánni og fann svitann leka niður bringu og kálfa. Held ég sé enn með tæpa hárkollu af hárbroddum fasta á mér hér og þar.

Þessa dagana er ég mjög feginn að vera hvorki háður almenningssamgöngum um ferðir til og frá skóla/vinnu - né fastur í vinnuaðstöðu þar sem verður of heitt. Vissulega verður ólíft á kontórnum okkar E. eftir hádegi, en ég er farinn að vera duglegri að stinga af fram í miðrýmið þar sem er notalegt hitastig á svölunum. Í dag þurfti ég aðeins öflugri tölvu en eru á svölunum og endaði niðri í multimedia-labbinu, þar var loftkælingin á slíku blasti að ég get svo svarið að mér var næstum kalt.

Það er þá í fyrsta skipti í langan tíma.

Ekki svo að hitinn fari almennt illa í mig, en maður verður óneitanlega svolítið latur og sljór. Eftir boltann í gær var ég t.d. alvarlega að spá í að fara í útibíó uppi á Vesterbro, en þegar til átti að taka nennti ég ómögulega að koma mér af stað og hengslaðist bara yfir imbanum.

Hitastigið utanhúss á kvöldin þykir mér þó alveg frábært, hér fer hitinn varla undir 20 stig á næturnar - afskaplega notalegt að fara í smá kvöldgöngu eða hjóla.

Svo merkilegt sem það nú er (sérstaklega í ljósi síðustu yfirlýsingar), þá er það einna helst á næturnar sem ég finn fyrir hitanum. Þó maður liggi berstrípaður uppi í rúmi sængurlaus með opinn glugga finnst mér mun heitara í herberginu heldur en áður en ég hátta mig.

Þar spilar kannski aðeins inn í að þegar heitast er hef ég rifu á hurðinni fram á gang þar sem alltaf er opið út og næ þannig smá hreyfingu á loftið. Ég er hins vegar ekki svo ævintýragjarn að hafa skó í dyragættinni meðan ég sef, þá kýs ég heldur að loka hurðinni.

Nú er sólin búin að skína linnulítið í mánuð og allir grasblettir sinugulir. Bannað að kveikja eld og grilla á einnota grillum um stóran hluta Jótlands og á Bornholm. Allir bíða spenntir eftir hvar regnskúrarnir sem eiga að falla á morgun lenda, ef þeir þorna þá ekki upp eins og aðrir þeir skúrar sem spáð hefur verið undanfarið.

Það verður a.m.k. hressandi að koma heim í næstu viku, ég hef það t.d. eftir nokkuð áreiðanlegum heimildum fyrstu handar að það hafi engum verið of heitt á Egilsstöðum í dag.


< Fyrri færsla:
Óbrotinn úr boltanum
Næsta færsla: >
Breiðasta vefsíða heims?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry