Þungu fargi létt

Við hittumst ósiðlega snemma á kontórnum í morgun og sátum við fram undir klukkan fjögur. Mitt fyrsta verkefni var að klára að lesa yfir teoríukaflana sem E. hefur skrifað og að því loknu settumst við yfir það maraþonverkefni að pússa til orðalag og skerpa.

Það er aldrei auðvelt þegar fleiri en einn koma að svona verki að koma sér saman um orðalag og áherslur, sumt af athugasemdum mínum voru innsláttar og stafsetningarvillur, annað var tillögur að orðalagi sem betur mátti fara og í þriðja lagi voru athugasemdir við textabúta sem ég ekki skildi eða vissi að hægt væri að orða betur.

Þetta hafðist hins vegar án blóðsúthellinga né teljandi ósættis og það verður að viðurkennast að kom mér þægilega á óvart.

Blessunarlega var líka skýjað að mestu þannig að það var líft á kontórnum allan daginn, en slíkt hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna (og í okkar tilviki er það ég). Þolanlegt hitastig, jarðarber, kirsuber, skonsur og súkkulaði lögðu sitt sameiginlega af mörgum til að halda uppi baráttuandanum.

E. hefur viðurkennt að hún eigi stundum erfitt með að taka gagnrýni á verk sín og upplifi það sem gagnrýni á sjálfa sig - en ég held mér hafi tekist að koma mínum athugasemdum á framfæri án þess að styggja hana að neinu viti. Það var helst að við værum nokkrum sinnum sammála um að vera ósammála um val á stöku orðum, en það er eins og við er að búast.

Þrátt fyrir að verkið hafi gengið nokkuð hnökralaust vorum við samt rúmlega fjóra tíma að vinna okkur í gegnum 20 síður...

Til að verðlauna okkur fyrir dugnaðinn tökum við okkur frí á morgun, en á mánudaginn ætlum við svo að vinna okkur gegnum mína texta fyrir hádegi og byrja svo að berja saman skjal sem við getum sent John (grófpússa heimildavísanir og annað í þeim dúr).

Þá kemur í ljós hvort ég taki gagnrýni á eigins texta jafn vel og ég sjálfur vil halda fram...

Þannig að það stefnir allt í að við getum skilað af okkur þokkalegu uppkasti að "the belly of the beast" áður en við skreppum í frí á þriðjudag.

Sem er hið besta mál.


< Fyrri færsla:
Steinrotaður á fyrsta
Næsta færsla: >
Reykjavík eftir viku
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry