Steinrotaður á fyrsta

Það var mjög notalegt að rölta í skólann á föstudagsmorgni í þéttri rigningu með regnhlíf sér til varnar. Því miður stóð rigningin ekki sérlega lengi og það var meira eða minna allt orðið þurrt um hádegið.

Annars var þetta stór dagur í verkefnavinnunni, því seinnipartinn prentuðum við út það sem við höfum verið að skrifa sitt í hvoru lagi og lögðumst yfir að lesa texta hins. Mér sýnist við vera komin með af stærðargráðunni rétt rúmlega grófunnar 50 síður, sem er vonandi um 2/3 af því sem við munum skila.

Um fjögurleytið var Emilie orðin þreytt og pressaði á að við kíktum í einn bjór, mér fannst ég reyndar nægilega hress til að vinna aðeins lengur en lét til leiðast. Þar sem dælurnar voru ekki komnar almennilega í gang keypti ég mér flöskubjór og við settumst út í sólina með nokkrum kennurum við skólann sem E. þekkir.

Eftir þennan eina litla bjór var ég gersamlega örmagna og næstum sofnaður ofan í borðið. Sá því mér hið óvænna og rölti heim, fækkaði fötum og skoðaði á mér innanverð augnlokin í hátt í tvo tíma. Ég leyfði reyndar sjálfum mér ekki að steinsofna, en dormaði miðja vegu milli svefns og vöku.

Svitateiti á Snares

Nokkrum samlokum og sturtu síðar hjólaði ég svo upp á Vesterbro í innflutningspartí hjá Snares-genginu.

Á leiðinni hjólaði ég framhjá Hálmtorginu þar sem fyrstu atvinnumennirnir voru að tínast á staðinn með sólstólana klukkutíma áður en sýning kvöldsins á Rocky Horror Show átti að byrja í Zulu Sommerbio.

Við E. höfðum ákveðið að hittast snemma á laugardagsmorgninum þannig að ég var frekar spakur í drykkjunni, fékk mér smá sangria og einn bjór en skipti svo yfir í vatnið þegar leið á kvöldið.

Partíið minnti einna helst á partíið í Friends þáttunum þegar ofninn bilaði og allir voru að stikna. Ég held að allir gestir hafi haft á orði hvað þeim væri heitt (og það voru mörg orð sem á voru höfð, enda gestirnir ekki fáir).

Þegar ég kvaddi og fór heim skömmu eftir miðnættið voru gestirnir líklega komnir á seinna hundraðið og skrokkafjöldinn gerði sitt til að kynda kofann. Þrátt fyrir að allir gluggar væru opnir upp á gátt sýndi hitamælir inni á baði 27°C kortér yfir miðnætti.

Ég þykist samt vita að fjörið hafi fyrst verið að færast í mannskapinn þarna þegar ég þurfti því miður að yfirgefa geimið.

Hjólatúrinn heim var svo mjög notalegur, þrátt fyrir blankalogn gerði ferðin á hjólinu að maður fékk svalan gust og það var gaman að hjóla gegnum bæinn og upplifa miðjarðarhafsstemmninguna með fólk á stuttum buxum og/eða kjólum að spóka sig í sumarnóttinni.


< Fyrri færsla:
Friðrika er heppin
Næsta færsla: >
Þungu fargi létt
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry