Reykjavík eftir viku

Ég lendi á Akureyri næsta þriðjudagskvöld og gisti þar. Síðan fæ ég far með gamla settinu austur á bóginn á miðvikudag, með áætlaðri millilendingu í Kelduhverfinu þar sem 3/7 hlutar Þrumu ásamt fjölskyldum verða staddir undir yfirskini veiða.

Hvað ég geri á Austurlandinu er óljóst, en ætli ég liggi ekki aðallega í leti og reyni að éta foreldrana út á gaddinn. Auk þess að sækja mér nýtt Visakort til að eiga í handraðanum þegar maður hellir sér aftur í neyslubrjálæðið.

Þar sem nú er að verða ljóst að Mardí systir verður ekki mér til samneytis fyrir austan ætla ég að fara suður á laugardagskvöldinu frekar en sunnudegi eða mánudegi eins og ég hafði fyrst verið að spá.

Ég er hins vegar engu nær um hvernig ég ætla að púsla saman sósíalskuldbindingum fyrir sunnan, margir sem ég þarf að hitta en ég verð að viðurkenna að ég hef ekkert gert í því að skipuleggja hvernig það púsluspil á að ganga upp.

Geri það líklega bara símleiðis frá Egilsstöðum.

En mann fer svona hvað úr hverju að hlakka til að tylla tá á klakann.

Hvað skyldi ég annars hafa gert af ullarnærfötunum... ?


< Fyrri færsla:
Þungu fargi létt
Næsta færsla: >
Skór í gættinni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry