Margoft yfir Löngubrúna

Um helgina telst mér til að ég hafi hjólað sex sinnum yfir Langebro, þrisvar í hvora átt á jafnmörgum dögum.

Á föstudagskvöldinu til að fara í sveitta partíið hjá Snares-genginu.

Á laugardagskvöldinu til að kíkja í heimsókn til Björgvins og Elínar. Mjög hugguleg kvöldstund (a.m.k. eftir að mér var hleypt inn).

Ég mundi ómögulega hvaða nafn væri á bjöllunni hjá þeim (Rassmusen) og síminn hennar Elínar var alltaf á tali, enda hún að spjalla við ömmu sína á Íslandi. Það var því ekki annað að gera en að kíkja á gluggaútstillingar forngripaverslananna þar til Elín kom auga á mig norpandi í 22 stigunum.

Sat hjá þeim hjónaleysunum eitthvað fram yfir miðnættið.

Á sunnudeginum var skýjað veður en mollulegt. Þegar ég loxins hafði mig af stað seinnipartinn í smá rannsóknarleiðangur upp á Vesterbro stóðst á endum að sólin byrjaði að skína af fullum þunga og ég var orðinn kófsveittur áður en ég komst að Langebro.

Markmið leiðangursins var að finna hinn vandlega falda garð Skydebanehaven sem Þorfinnur skásvili hafði mælt með. Það tóxt.

Þegar ég gafst upp á hitamollu Vesturbrúar hjólaði ég til baka og var með einhverjar óljósar vangaveltur um að kíkja á Amager ströndina. Á leiðinni millilenti ég í risastóran kúluís á Islands Brygge og sat þar drjúga stund að horfa á töffarana sýna listir sínar í dýfingum af 5 metra palli.

Fór svo bara heim að tjilla enda komin þörf fyrir smá skugga.

Ég hafði tekið stefnuna á að kíkja á Zorro í útibíói hérna rétt fyrir sunnan (milli Bella Center og Fields), en þegar brast á með rigningu og eldingum klukkutíma fyrir bíó var því sjálfhætt.

Nú er ég að dunda mér við að finna afsakanir fyrir því að byrja ekki að pakka niður.

Klakinn annað kvöld.

Hmmm... Kannski ég taki bara klósettið í gegn fyrst.


< Fyrri færsla:
Skór í gættinni
Næsta færsla: >
Frá leiðinlegum mönnum
 


Athugasemdir (1)

1.

elin reit 25. júlí 2006:

Jamm, það verður gengið í dyrabjöllumálið bráðlega......

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry