Enn með lífsmarki

Ferðin heim var tíðindalaus eftir að biðraðafjöri Kastrup sleppti. Eftir fréttir liðinna vikna af gríðartöfum við tékk-inn og vopnaleitir á Kastrup (auk bilaðra farangursfæribanda) undanfarnar vikur þorði maður ekki annað en mæta tímanlega.

Iceland Express tekur skýrt fram að þeir opni tékk-inn alltaf "að minnsta kosti tveimur tímum fyrir brottför" og ýja að því að það sé yfirleitt fyrr. Þannig að maður mætti tveimur tímum og kortéri fyrir brottför og tók hálftíma í að standa í hópi Íslendinga bíðandi eftir því að gefið verði upp á hvaða borði eigi að tékka inn í flugið til Akureyrar.

Þegar það var svo opnað kortéri of seint og Íslendingar sýndu snilli sína í að búa til íslenska röð (ekki hægt að hafa eina röð sem skiptir sér á opnu borðin tvö eftir hentugleikum - tvær raðir skulu það vera alla leið) tóku starfsmenn að sýna snilli sína við að vinna hægt og klúðra hlutum (sbr. fimm manna fjölskylduna sem var stoppuð í öryggisleitinni þar sem bara einn var með rétt nafn á farseðlinum).

Með örstoppi í bókabúðinni og því að éta aðra samlokuna sem átti að vera í kvöldmat á hlaupum eftir færiböndum tókst mér að mæta í vélina nokkurn vegin tímanlega og hún fór svo í loftið tuttugu mínútum of seint.

Ég náði hins vegar ekki að skipta úr stuttbuxunum fyrr en á klósettinu í flugvélinni enda gafst enginn tími fyrir slíkan hégóma í kapphlaupinu eftir göngum Kastrup flughafnar.

Flugið var tíðindalaust og við lentum á áætlun á Ak. Eftir að hafa ráfað um hina gríðarstóru fríhöfn rölti ég út í sumarkvöldið þar sem gamla settið tók á móti mér.

Eftir að hafa gist hjá þeim (og Margréti sys) í stéttarfélagsíbúð um nóttina heilsuðum við daginn eftir upp á Vilborgu í sumarfríi og kíktum á sýningu Louisu Mattíasdóttur í gilinu, brunuðum síðan út úr bænum yfir í Kelduhverfi.

Þar voru Ingvar, Gísli og Dóri við veiðar ásamt Deddu, Gretu, Siggu og barnaskaranum. Ég hitti á þau í veiðipásu þar sem verið var að ljúka við að þrífa og skila skálunum og heilsaði þar upp á Aðalheiði Ingvarsdóttur í fyrsta sinn. Hún tók mér prýðilega þótt sybbin væri (enda eflaust ýmsu vön í skrýtnum karlmönnum eftir að hafa dvalið þarna með Gísla og Dóra).

Eftir hádegisverð og smá rúnt um Ásbyrgi ákváðum við að halda útúrdúrnum áfram og keyra fyrir Melrakkasléttu. Eftir stopp í öllum helstu stórplássum í prýðilegu veðri keyrðum við upp í þokuna í Hellisheiði eystri. Ég vann svo bjór af pabba í veðmáli um það hvort við myndum komast upp úr þokunni aftur (sem við gerðum) og við skiluðum okkur kortéri of seint í Tærukvöld Margrétar á Egilsstöðum, en náðum tilþrifum Magna í útlandinu.

Fyrir austan var svo kíkt í bústaðinn, skroppið í golf með pabba og föðurbræðrum mínum (þar sem ég tapaði nokkuð sannfærandi en týndi þó ekki einni einustu kúlu), farið út að borða með gamla settinu og almennt henxlast í prýðilegu veðri.

Ég flaug svo suður á laugardagskvöldinu og er búinn að vera hér í góðu yfirlæti síðan.


< Fyrri færsla:
Farinn í frí
Næsta færsla: >
Sól í Reykjavík
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry