Islandsk musik fredag

Trabant og Apparat mæta hingað og troða upp á Public Service tónlistarhátíð DR.

Sem hluti af henni verða tónleikar alla helgina á svokölluðu Ørestad Nord svæði, sem mér sýnist í stuttu máli vera hægt að lýsa sem svæðinu kringum skólann minn.

Það eru því hæg heimatökin og ég á von á Steinunni, Elínu, Björgvin og eflaust einhverjum fleirum til að kíkja aðeins á fredagsbarinn og skella sér svo á tónleika.

Í hlutverki gestgjafans mun ég þó þynna bjórinn eitthvað með gosdrykkju, enda veitir ekki af að halda sönsum alla helgina.

Verkefnisstaðan

Við erum búin að ganga gegnum nokkrar uppsveiflur og míníkrísur (aðallega annars okkar) (og þá ekki mín) en nú erum við búin að marka leiðina, vitum nokkuð nákvæmlega hvað við ætlum að gera og ekkert eftir nema að koma því í verk.

Áætlunin er að vera komin með útgáfu sem hægt væri að fá samþykkta (án þess að fá sérlega góða einkunn) og senda á kennarann á mánudagsmorgun. Það er enn möguleiki á að það takist.

Ég er enn að höndla stressið með ágætum, engin teljandi svefnvandræði og get alveg gleymt verkefninu á kvöldin.

Hins vegar er maður óttalega dasaður þegar heim er komið um sex-sjö leytið.

Hætti reyndar snemma í dag og spilaði fótbolta í klukkutíma við Eyrnasundskollegíið. Frammistaðan upp og ofan, en ég skoraði slatta af mörkum (var í 3,5 manna liði sem skoraði 40 mörk - þannig að það var af nógu að taka). Minnisstæðast er þó að hafa skorað a.m.k. þrjú mörk með því að klobba félaga Aðalstein.

Í gærkvöldi hafði ég einmitt hitt hann á kvöldvakt í vinnunni hans, borðað með honum bagles og fylgst með honum fjarlægja Avedøre af skátamerktri kerru í 2,5 sekúndna myndskeiði. Held það hafi ekki tekið nema einn vinnudag.

Miðakaup um víða veröld

Annars er ég núna kominn með miða á hina uppseldu tónleika fjarfrænda míns Sufjan Stevens í Fríkirkjunni (strangt til tekið er miðinn reyndar á Íslandi en ég á inni vilyrði um hann).

Svo er ég búinn að kaupa miða til Parísar og er að fara að ganga frá miðakaupum til London.

Það fara líka að verða síðustu forvöð að nýta sér kosti þess að vera hérna á meginlandinu með einn af stærri flugvöllum Evrópu.

Á móti kemur reyndar að ég er endanlega búinn að blása af ferð til Tórínó.


< Fyrri færsla:
Ekki yfirlesinn enn
Næsta færsla: >
Þusað yfir mbl
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry