Trabant og Apparat

Á föstudaginn tókst mér loks að draga með mér Esper snara-gengið ásamt fleirum á Fredagsbarinn, sem aftur dró með sér meira fólk, sem þekkti fleira fólk o.s.frv.

Mér heyrðist almennt að barprísarnir féllu íslenskum námsmönnum og láglaunablókum vel í geð og bendir allt til að þetta verði fastur liður í djömmum nærsveitunga komandi vetur (enda Inga Rún að hefja nám við ITU í næstu viku).

Við hittumst í einn öllara fyrir Trabant-tónleikana sem voru strax klukkan hálf-níu og það voru ekki sérlega margir í mötuneyti KUA þegar goðin stigu á svið. Þetta var í fyrsta skipti sem ég sé Trabant live og um leið í fyrsta sinn sem ég hef séð hljómsveit taka svona geðveikt tæpra 40 mínútna sett, byrjandi á fullu trukki og gefa svo bara enn meira í. Enda voru þeir meira eða minna allir komnir á (gull-) brókina eftir nokkur lög.

Eiginlega bara ólýsanlega flott hjá þeim og því engin ástæða til að reyna að verja á þá fleiri orðum.

Svo var farið aftur yfir á ITU barinn og að þessu sinni tíndust hátt í 40 íslíngar smám saman þangað yfir, þar af þekkti ég fæsta en sýndist þó að ég myndi vera eini íslenski ITU nemandinn á svæðinu þannig að í raun voru allir í boði mínu (eða aðgangskortsins míns). Þar var setið að sumbli (ég þó mjög takmarkað) til rúmlega miðnættis þegar stefnan var hægt og rólega yfir á Apparat tónleika.

Ég veit ekki hvort það var ég eða þeir sem voru ekki alveg í stuði (nema hvorttveggja sé) en einhverra hluta vegna náðist ekki upp innra með mér sama stemmning og þegar ég fór á þá í Vega síðastliðinn vetur. Þeir eru samt alltaf skemmtilegir nördar, þótt ég hafi ekki enst alla tónleikana að þessu sinni. Var þá orðið mun fámennara í salnum en í upphafi tónleikanna.

Ég hef mér það til afsökunar að það hafði dregist að tónleikarnir byrjuðu og þegar þarna var komið sögu átti ég að mæta 7 tímum síðar í skólann og mál til komið að koma sér í bólið.

En mér segir svo hugur að það hafi verið slatti af drukknum Íslendingum hjólandi um Amager þarna rúmlega tvö um nóttina...

Rigningar saknað

Þegar ég horfði á sjónvarpið yfir kebabkvöldverðinum var sérstök aðvörun vegna yfirvofandi skýfalls meira eða minna um alla Danmörku. Spáð 15-30 millimetra úrkomu á nokkrum tímum.

Ég tók því með mér nýkeypta regnhlíf (sú gamla fauk upp um daginn og ég hef gefist upp á að reyna að gera við hana) en þrátt fyrir nokkrar dembur lét úrhellið á sér kræla og ég rölti heim í blíðskaparveðri.

Í veðurfréttum á laugardaginn voru svo birtar úrkomutölur landsins og þar sem mest var höfðu fallið 62 mm á sólarhring. Hér á Amagri sýndist mér það vera um 2 mm.

Verst er að ég held að þeir hafi báðir fallið þegar ég hljóp við fót þessa 500 metra leið frá KUA yfir á ITU með Elínu og Björgvin.


< Fyrri færsla:
Bölvuð sé samviskusemin
Næsta færsla: >
Frí í sólarhring
 


Athugasemdir (3)

1.

Júlía reit 21. ágúst 2006:

Við Esbern Snöru gengi (og hópurinn sem fylgdi)þökkum fyrir frábært kvöld og kynningu á þessari bezt geymdu perlu Kaupmannahafnar, fredagsbar ITU.

2.

elin reit 22. ágúst 2006:

Hrafnaborgargengið þakkar líka fyrir sig þó sumir (þeir sem er að gera lokaverkefnið sitt) sáu eftir ca helmingi öldrykkju sinnar daginn eftir. Það var bara ekki hægt annað en að kaupa öl þegar það er svona mikið úrval af því á svona líka góðu verði!!! .....og já, það rigndi eldi og brennisteini!!

Gangi þér vel að vinna og svo verður fagnað fullt af lokaverkefnis skilum þann áttunda sept.

3.

Þórarinn sjálfur reit 22. ágúst 2006:

Gengjafulltrúum eru þökkuð hlý orð í minn garð og barsins. Takk fyrir skemmtilegt kvöld.

Vonandi get ég tekið einbeittari þátt í bjórneyslunni næst þegar hist verður á ITU barnum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry