Vinnuhulu létt af

Fyrir sléttum mánuði síðan, þegar ég skilaði mér aftur til .dk eftir frí heima á klaka skrifaði ég:

Vinnumál eru sem sé í höfn núna, ég er búinn að hafa samband við fyrirtækin þrjú sem höfðu rætt við mig og láta þau vita hvað varð fyrir valinu. Að vísu er eftir að ganga frá síðustu smáatriðum vegna fjarveru lykilmanna, en að því loknu verða hér birtar nánari upplýsingar um hvaða starf varð fyrir valinu.

Þótt ég og verðandi yfirmaður minn höfum spjallað aðeins saman síðan, hefur hvorugur okkar verið sérlega stressaður yfir þessum smáatriðum og því eru sum þeirra enn óklár. En það er hins vegar engin spurning að ég byrja hjá þeim þegar heim kemur.

Smá flassbakk

Fyrir rétt rúmlega sjö árum síðan (hljómar mjög spúkí hversu langt er liðið) mætti ég í atvinnuviðtal hjá litlu fyrirtæki sem hét Gæðamiðlun og var til húsa á Ægissíðunni. Þar spjölluðu við mig Stefán nokkur Baxter og Már Örlygsson.

Ég held mér sé óhætt að fullyrða að það hafi verið faglegur áhugi á báða bóga og þegar ég yfirgaf svæðið hátt í tveimur tímum síðar var það með atvinnuboð í vasanum, sem mig minnir að ég hafi þáð seinna sama dag.

Þetta varð upphafið að skemmtilegasta hluta míns starfsferils og ein af rótum þess að ég er þar sem ég er í dag.

Sjö árum síðar fór ég svo í viðtal/spjall hjá Stefáni aftur, auk þess að hitta Má við enn óformlegri aðstæður. Niðurstaða þeirra spjalla er að ég er búinn að ráða mig til Hugsmiðjunnar.

Auk Stebba og Más sýnist mér að ég hafi unnið með á að giska þriðjungi starfsmanna áður, þannig að ég þykist hafa einhverja hugmynd um hvernig vinnuandinn sé.

Starfstitill minn er eitt af þessum smáatriðum sem á eftir að klára, en einföld starfslýsing liggur fyrir og ég hlakka til að fara að takast á við þau verkefni sem í henni felast.

Við erum heldur ekki búnir að fastsetja nákvæmlega hvenær ég byrja, en mánudagurinn 16. október þykir mér koma vel til greina.

En ég er að minnsta kosti mjög spenntur og held að þetta eigi eftir að verða annað skemmtilegt tímabil.


< Fyrri færsla:
Stuð föstudaginn næsta
Næsta færsla: >
The falling man
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 10. september 2006:

Já til lukku til þetta en vertu nú ekki að byrja í starfinu á mánudegi. Það gerir maður bara ekki :)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry