The falling man

Í Mogganum í dag segir um heimildarmyndina "Í frjálsu falli" (The falling man):

Bresk heimildamynd. Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 birtist ljósmynd af manni sem hafði stokkið niður úr turni World Trade Center. Myndin birtist á forsíðum heimspressunnar degi síðar, en hefur vart sést síðan. Þessi heimildamynd fjallar um ljósmyndarann.

Og ofar á dagskrársíðunni er klásúlan:

Ný bresk heimildamynd í Sjónvarpinu kl. 22.15 sem fjallar um ljósmyndara sem lagði líf sitt í hættu er hann tók ógleymanlega ljósmynd af manni sem hafði stokkið niður úr turni World Trade Center.

Lox segir frumheimildin á vef RÚV:

Ný bresk heimildamynd. Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001 birtist ógleymanleg ljósmynd af manni sem hafði stokkið niður úr turni World Trade Center. Myndin birtist á forsíðum heimspressunnar degi síðar, en hefur vart sést síðan. Þessi heimildamynd fjallar um ljósmyndarann sem lagði líf sitt í hættu á þessum örlagaríka degi.

Uuu... nei.

Nú get ég fyllilega mælt með þessari mynd, enda horfði ég á hana í gærkvöldi, hún er bæði vel sett fram og veitir "nýja" innsýn í það sem gerðist þennan dag, auk þess að sýna nokkrar af þeim manneskjum sem lentu í þessum hremmingum.

En myndin fjallar ekki um ljósmyndarann og það kemur hvergi fram í henni að hann hafi lagt líf sitt í hættu við að taka myndina. Hann var í nokkuð öruggri fjarlægð og ekki í meiri hættu en aðrir sjónarvottar á Manhattan þennan dag.

Heimildarmyndin fjallar þess í stað um ljósmyndina sjálfa, hvað hún segir um atburðina, þau sterku viðbrögð sem hún olli og vangaveltur um það hvers vegna hún var bara birt einu sinni og hvarf svo af síðum blaðanna. Það er talað við ljósmyndarann, aðstandendur þeirra sem lentu í árásinni og blaðamenn sem reyndu að komast að því hver maðurinn væri og hver saga hans væri. Ljósmyndarinn er hins vegar bara ein af þeim persónum sem rætt er við.

En myndinni er hægt að mæla með, þótt hún hristi auðvitað upp í manni með því að fjalla um óþægilega atburði og spyrja hinnar óþægilegu spurningar: Hefðir þú stokkið eða ekki?


< Fyrri færsla:
Vinnuhulu létt af
Næsta færsla: >
One more thing
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 11. september 2006:

Sá þessa mynd á RÚV í gær. Sannarlega áhrifamikill fyrri hluti með almennri umfjöllun um "stökkvarana" og viðtölum við aðstandendur. Var hins vegar mjög pirraður útí þessa kanadísku blaðamenn sem voru að reyna að grafa upp nafn þessa tiltekna manns. Get ekki, frekar en margir viðmælendurnir komið auga á tilganginn með því. Fyrir utan auðvitað að vekja athygli og selja blöð. Asnalegt. En fyrri hlutinn var góður. Merkilegt að í dag eru 5 ár frá árásunum og ég fæ enn þessa óraunveruleikatilfinningu þegar ég sé myndir af þessu. Maður getur enn varla kyngt því að þetta hafi raunverulega verið framkvæmt en sé ekki atriði úr Hollywood-mynd

2.

Þórarinn sjálfur reit 11. september 2006:

Alveg sammála.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry