One more thing

Eins og eflaust verður búið að básúna í öllum mögulegum og ómögulegum vefmiðlum (sjáum hvað Baggalútur gerir) var Steve Jobs að kynna nýjar græjur með sínum venjubundna hætti. Byrjaði á að kynna nýja útgáfu af iTunes hugbúnaðinum, og svo "one more thing"; bíómyndir frá Disney og undirfyrirtækjum þess Touchstone, Miramax og Pixar.

Síðan kom annað "one more thing"; lítið box á stærð við Mac Mini sem verður gefið út á næsta ári og er huxað til að móttaka efni þráðlaust frá makka og birta í sjónvarpi.

Nýju iPod-arnir eru líka smartir. Greinilegt að þeir hafa ekki tímt að henda alveg lituðu áláferðinni frá múrsteinshlunkunum sem áður voru kallaðir iPod mini (nei, ég er ekkert bitur) og hafa skellt henni á iPod nano og shuffle.

Apple og bíómyndadreifing

Það að Apple sé byrjað að dreifa bíómyndum er í fullu samræmi við vangaveltur sem maður hefur séð áður á netinu (og ég tjáð mig um) um að Apple ætli að nota iTunes verslunina til að ná tangarhaldi á sölu myndefnis yfir netið.

Að vísu gerist það hægar en menn höfðu spáð að hækka upplausnina á myndefninu, en núna verður myndefnið selt í upplausninni 640x480 pixlar (fjórfalt hærra en sjónvarpsþættirnir voru áður seldir í) og er þar með komið upp í um 70% af upplausn sjónvarps í Evrópu (PAL kerfisins) og þar með í um 70% af upplausn DVD diska.

Sjá líka þus mitt fyrir 11 mánuðum síðan þegar Jobs tilkynnti fyrst um myndefni í iTunes.

Það kæmi mér ekkert á óvart þótt óvanir ættu eftir að eiga erfitt með að sjá teljandi mun á þessari upplausn í góðum gæðum og DVD mynd í venjulegu sjónvarpi. Ég skal svo hundur heita ef þetta skilar sér ekki í betri gæðum heldur en ADSL sjónvarp Símans (Skjárinn og enski boltinn (hvað sem hann nú heitir nú)).

Eins og þessi grein bendir á er kvikmynd í DVD-gæðum 800 sinnum stærri skrá en meðalpopplag (með meðfylgjandi kostnaði við dreifingu og utanumhald). Bandvídd er hins vegar að verða ódýrari og Apple á eflaust eftir að hækka upplausnina frekar við næstu uppfærslu.

Apple geta leyft sér að tapa

Í dag rakst ég líka á forvitnilega grein um það hvers vegna Apple væri að hafa fyrir því að reka iTunes búðina, miðað við hvað hún skilar litlum hagnaði.

Í stuttu máli; Apple græðir á að selja vélbúnaðinn (tölvurnar og spilarana), verslunin er aðallega til að geta haldið uppi straumi af efni í vélbúnaðinn. Þeir geta því leyft sér að selja efnið á kostnaðarverði og jafnvel tapað aðeins á því. Svipað dæmi og þegar stýrikerfin voru að kljást hérna um árið, kerfið með nægilegt úrval hugbúnaðar (á góðu verði) vann.

Apple hefur líka kverkatak á spilaramarkaðnum, þeir selja um 75% af öllum spilurum og fyrir vikið eru þeir með magnsamninga við framleiðendur minniskubba og harðdiska sem aðrir geta engan vegin keppt við.

Af hverju að sýna höndina?

Það að Jobs skyldi hafa kynnt græju til að tengja við sjónvörp kom heldur ekki á óvart, þeir hafa verið að stefna óðfluga á slíkt undanfarið (t.d. með Front Row hugbúnaðinum) en það sem mér finnst samt skrýtið er að hann skuli nefna þetta núna, mörgum mánuðum áður en til stendur að markaðssetja gripinn.

Venjulega eru Apple mjög leyndardómsfullir um allar nýjungar og skrökva frekar um tafir til að geta slengt nýjum græjum óvænt á borðið.

Þetta er því líklega einhver pólitík hjá kallinum, að ná samningum við fleiri kvikmyndadreifendur eða setja pressu á einhverja aðra.

Ég yrði ekkert rosalega hissa þótt græjan dúkkaði svo "óvænt" upp á jólamarkaðnum næsta frekar en á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Þeir hafa líkan nægan tíma til að saxa á markaðinn og hækka upplausnina rólega, því það stefnir allt í að háupplausnar DVD/Blue-Ray sé ekki að birtast innan sjóndeildarhringsins alveg á næstunni (þótt framleiðendur keppist við að fela þá staðreynd).

Sem minnir mig á að ég á alltaf eftir að tuða aðeins um framtíð stafræns sjónvarps á Íslandi. Þarf að drífa í því eftir prófið.

Meira makkatuð væntanlegt fljótlega.

Uppfært: Kíkti að gamni á hvað Cringely væri að segja þessa dagana. Kemur í ljós að hann hafði spáð í hvað Jobs myndi segja. Hann er nú bara helvíti nálægt því kallinn, nema að ekki voru kynnt nein Apple sjónvörp.


< Fyrri færsla:
The falling man
Næsta færsla: >
Skilgreining á sljóleika
 


Athugasemdir (2)

1.

Þórarinn sjálfur reit 12. september 2006:

touché

2.

hildigunnur reit 12. september 2006:

haha, góður þessi :-D

Annars hrrrikalega pirruð á Senuþjófunum sem koma enn (og jafn lengi sem þeir eiga megnið af höfundarrétti á íslenskri músík) í veg fyrir að iTunes Music Store verði leyfð hér á landi.

grrrr!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry