Skilgreining á sljóleika

Ég hef verið að skoða "alvöru" hnífa, af þeim toga sem kosta samanlögð mánaðarlaun meðalþorps í Afríku, og þar er af ýmsu að taka. Er alvarlega að spá í að skella mér á tvo eða þrjá áður en ég kem heim, í þeirri trú að þeir séu á betra verði hér en á Laugaveginum og að hnífakostur sé akkúrat það sem stendur í vegi fyrir að ég blómstri sem meistarakokkur á Jamie Oliver skalanum.

Það eru til margvíslegar skilgreiningar á því hvað teljist gott bit og besta slípunaraðferðin, besta stálgerðin og ég veit ekki hvað.

Ég held hins vegar að mér hafi tekist að skilgreina núll-viðmiðið í hnífaskerpu í gær. Þá dró ég fram "kokkahnífinn" sem ég keypti á tíkall í stórmarkaði fljótlega eftir að ég kom hingað út (hef reyndar notað hann mun minna en samsvarandi brauðhníf) og ætlaði að nota hann til að brytja niður epli í ávaxtasalat.

Hnífhelvítið beit hins vegar ekki á eplinu. Epli! Og ég var búinn að flysja það!!!

Ef það er ekki skilgreiningin á sljóleika veit ég ekki hvað er.

Held hann fari beint í ruslið næst þegar ég tæmi mjólkurfernu (svo ég drepi nú engan) (það þyrfti reyndar mikið lag til miðað við hvað helvítið er bitlaust).

Lýsi hér með eftir sögum af lélegum eldhúsáhöldum, hver lumar á reynslusögu?


< Fyrri færsla:
One more thing
Næsta færsla: >
Apple fokkar upp
 


Athugasemdir (3)

1.

Óskar Örn reit 13. september 2006:

Get sagt þér eftirfarandi byggt á persónulegri reynslu: Lykillinn að því að verða góður og hugmyndaríkur kokkkur á la J.Oliver er ekki falinn í því að sanka að sér nýju eldhúsdóti og -áhöldum. Og sama gildir um söfnun nýrra matreiðslubóka og uppskrifta. Veit ekki hver lykillinn er, satt best að segja. En það er samt ferlega gaman að kaupa svona dót!:-)

2.

Þórarinn sjálfur reit 13. september 2006:

Vísindamaðurinn í mér er tregur til að útiloka (að óreyndu máli) að einhversstaðar finnist lykileldhúsáhaldið sem gerbreyti öllum mínum eldhúsupplifunum.

Og eins og Óskar bendir á er leitin að slíku áhaldi hin besta skemmtan í sjálfu sér - jafnvel þótt niðurstaðan sem stefnt er að kunni máske aldrei að nást...

3.

Alex reit 13. september 2006:

Ég held að gæfumunurinn felist í því að hafa einhvern sem manni langar til að elda fyrir.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry