Lokapróf á morgun

Við E. hittumst í morgun og tókum eina umferð af yfirlestri á fyrirlestrinum okkar fyrir lokaprófið á morgun.

Seinnipartinn erum við svo búin að vera að brasa við að fá eye-tracker skólans til að keyra. Fyrsta plan var að gera það á fartölvunni minni, en þegar átti að tengja hana kom í ljós að það þurfti FireWire tengi, sem Surtla mín býr ekki yfir. Þetta uppgötvaðist rétt fyrir klukkan 14, þegar SysAdmin lokar, þannig að við hlupum þangað á spretti og fengum lánaða tölvu til að nota á morgun.

Eftir svolítið bras fengum við þetta til að keyra eins og til er ætlast, planið er svo að stilla græjunum upp í prófstofunni um hádegið á morgun.

Verst er að kennarinn okkar er nokkuð viss um að prófdómarinn sé með þykk gleraugu (eða það minnir hann) þannig að það er spurning hvernig gengur að stilla græjuna. Í versta falli tökum við bara plan B og látum einhvern annan en prófdómarann setjast í sætið og spreyta sig. Það væri hins vegar gaman ef hann fengi tækifæri til að prófa upplifunina.

Lítil frí í sólinni

Veðrið alla þessa viku er búið að vera frábært, en því miður hef ég verið í skólanum meira eða minna alla dagana. Þá daga sem við höfum ekki verið að vinna í prófundirbúningi hef ég verið að púsla saman PDF af lokaverkefninu (6,5 MB) auk þess að setja tilraunaumhverfið okkar á vefinn líka (6,5 MB, enginn preloader ennþá - sýnið biðlund).

Tilraunaumhverfið ætti að skýra sig nokkurn vegin sjálft. Það er hægt að nota músina í öllum útgáfum, en í "Gaze" er bendillinn falinn. Hægt er að birta hann með því að ýta á "C" á lyklaborðinu. Prófið t.d. Mouse - Pan/zoom - Find tasks. Maður súmmar inn og út með W og D (fleiri möguleikar sýndir á skjánum). Um að gera að fikta.

En nú er sem sé hægt að leggjast í að lesa í gegnum lokaverkefnið (þetta eru ekki nema um 90 blaðsíður, stórt letur og margar myndir) og skjóta á hvaða einkunn við eigum eftir að fá á 13 skalanum danska. Lokað verður á veðmál kl. 13 að dönskum tíma (11 að íslenskum).

En nú er minn farinn að ryksuga, fæ gest um helgina frá Lundúnum og ekki hægt að bjóða svo forfrömuðum frænda upp á rykflókafyllt herbergi.

Svo þarf ég að fara að æfa hlutverkið mitt fyrir morgundaginn.


< Fyrri færsla:
Apple fokkar upp
Næsta færsla: >
Og nýjar myndir
 


Athugasemdir (1)

1.

Gísli reit 15. september 2006:

A.m.k. 11. Aldrei minna fyrir þetta meistaraverk.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry