París: Fyrsti hluti

Það hefur dregist úr hófi að festa ferðasöguna til Parísar "á blað" og orðið ljóst að ef hún á ekki að lenda í sama limbói og ítarlega ferðasagan frá Vasa (sem enn er óskrifuð) er rétt að tækla verkefnið eins og fílsát; einn bita í einu.

Ég neita því ekki að ég hef fundið fyrir vissum þrýstingi frá föstum lesendum um að gera nánari grein fyrir því hvað á dagana dró í París. Eitthvað var tekið af myndum í ferðinni, en eins og karl faðir benti á eru þær meira af byggingum en t.d. ferðalöngum. Ég mun skjóta þeim inn í þessa frásögn eftir því sem við á (og það er hægt að smella á myndirnar til að sjá þær í betri gæðum).

En ég geri sem sé ráð fyrir að ferðasagan verði í þremur hlutum þegar yfir lýkur. Og hefst þá ritunin.

Sunnudagur í París

Að morgni sunnudagsins 3. sept, tæplega tveimur sólarhringum eftir lokaverkefnisskilin, brölti ég á fætur og tók leigubíl út á Kastrup. Þar sem ég hafði nýtt mér þá þjónustu Air France að prenta miðann út fyrirfram þurfti ég ekki nema bara að skila af mér töskunni á réttan stað og svipast um eftir öryggishliði með viðráðanlegri röð.

Mér leist ekki alveg á biðraðirnar í terminali 2 þar sem ég tékkaði mig inn, heldur reyndi þess í stað fyrir mér í öryggishliðinu milli 2 og 3. Ég ætla ekki að fullyrða að sú röð hafi gengið hratt, en þetta hafðist allt.

Þegar inn var komið hitti ég Emilie, John kennarann okkar, og Dan samstarfsmann hans sem öll voru á leið til Tórínó á ráðstefnu um augnstýringar.

Þetta var að mörgu leyti viðeigandi lokahnykkur á verkefnavinnuna okkar (þótt prófið væri auðvitað enn eftir), enda funduðum við Emilie á Kastrup á leið heim í síðasta jólafrí og tókum ákvörðun um að skella okkur á hugmyndina um að vinna verkefni um augnstýringar.

Flugið til Parísar gekk annars tíðindalaust. Það er mikill munur að þurfa ekki að hafa fyrir því að fljúga yfir Atlantshafið og þetta tók því ekki nema klukkutíma og þrjú kortér.

Ég held ég hafi aldrei ekið í flugvél yfir eins margar brýr og við gerðum meðan taxað var að byggingunum á Charles de Gaulle.

Það var svo léttir að sjá að danski farsíminn minn virkaði líka í París og ég væri því ekki sambandslaus við umheiminn.

Alex beið eftir mér við farangurstékkið, enda hafði íslenski hópurinn komið um klukkutíma fyrr frá Bruxelles. Þau höfðu tekið rútu beint frá Terminal 1, en ég lenti á Terminal 2 og við ákváðum að freista þess að taka lest niður í bæ.

Það gekk ekki alveg vandalaust því sjálfsalamaskínan virtist harðneita öllum erlendum kortum um afgreiðslu (og það kom auðvitað ekki í ljós fyrr en eftir kortér í biðröð), þannig að það var ekki um annað að ræða en að gera þetta upp á gamla mátan og stilla sér í biðröð til að láta manneskju afgreiða sig.

Þetta tókst með gamla laginu og við tókum lestina niður á Chatelet les Halles stöðina í miðbænum, þar sem við vorum búin að sjá út að við myndum ná metró sem kæmi okkur í nágrenni við hótelið. Ferðataska Alex sem vó rétt um hálfan annan hestburð og var með brotið dráttarbeisli að auki reyndist ekki sérlega lipur í meðförum en með lagni tókst að koma töskunni og okkur upp úr undirgöngunum og á hótelið.

Prýðis hótel

Við gistum á Hotel Adriatic, sem reyndist bara hið prýðilegasta mál (og frúin sem sést þarna á bak við afgreiðsluborðið var einmitt sú sjón sem blasti við okkur þegar við skiluðum okkur).

Þar sem mér skilst að það sé ekki á það að treysta að hótel í París í ódýrari kantinum séu endilega sérlega snyrtileg er rétt að ítreka meðmæli okkar með þessu hóteli. Vel staðsett, rétt við Bastillutorgið í þægilegu göngufæri við Notre Dame og miðbæinn mestallan. Snyrtilegt og fínt, með loftkælingu á herbergjunum (sem átti eftir að koma sér vel) og í hverfi með slatta af kaffihúsum, veitingastöðum og prýðilegu bakaríi.

(Þessi romsa var í og með skrifuð fyrir vin minn Google, svona ef einhverjir íslenskumælandi skyldu vera að leita sér að hóteli í París.)

Eftir að hafa gert grein fyrir okkur drösluðum við töskunum upp í hinni eftirminnilegu lyftu (gefin upp sem þriggja manna, en þeir þrír þurfa þá að vera mjög góðir vinir) (og gjarnan ekki mjög hávaxnir).

Lofthæðin í lyftunni

Lofthæðin í lyftunni góðu

Eyjarnar og Notre Dame

Það var ekki staldrað neitt við á hótelinu nema bara rétt til að draga fram sólgleraugun og halda út í léttskýjaðan daginn og um 25 stiga hita.

Við tókum strikið í átt að Signu og út á litlu eyjuna Íle St-Louis, þar sem við skutum okkur inn á kaffihús og fengum okkur fyrsta franska bita ferðarinnar (að sætabrauðinu sem ég keypti á flugvellinum frátöldum) í formi Crépes. Okkur þótti kannski í það snemmsta dags að taka út franska vínkúltúrinn, þannig að amerískt sódavatn varð fyrir valinu vökvakyns.

Leiðin lá síðan yfir á Íle de la Cité, þar sem Notre Dame kirkjan er. Á leið okkar þangað gengum við framhjá þremur rútukálfum fullum af óeirðalögreglumönnum í fullum herklæðum og þótt við yrðum ekki vör við að neitt væri á seyði sem krefðist mikils viðbúnaðar áttum við eftir að rölta fram hjá a.m.k. 4 rútum til viðbótar þannig að þarna var einhversstaðar á milli 100 og 200 óeirðalögreglumenn.

Það er ekki laust við að sveitamanninum þyki hálf óþægilegt að vera á vappi innan um slíkan viðbúnað, jafnvel þótt menn virtust afslappaðir, ýmist dottandi í rútunum, spilandi á spil eða að dytta að vélbyssunum.

Allt var þó með kyrrum kjörum og við kíktum inn í Notre Dame dómkirkjuna sem er óneitanlega einstök bygging. Ég held þó að hún hafi haft meiri áhrif á Alex en mig, enda ekki langt síðan ég gapti yfir dómkirkjunni í Hróarskeldu, þótt Notre Dame sé af allt annarri stærðargráðu eru hughrifin ekki ósvipuð. Það var líka að byrja messa og mér þótti hálfgert eins og ég væri að ónáða kirkjugesti sem væru að bíða athafnarinnar.

Notre Dame

Þessi upplifun á Notre Dame var að mörgu leyti einkennandi fyrir upplifun mína á París, þessi tvö ár í Köben hafa vanið mann við aðra hluti heldur en ef maður kæmi beint úr Reykjavíkinni. Það er margt líkt með París og Köben (a.m.k. í gömlu hlutum beggja borga) en heldur tilkomumeira í París (enda fékk maður oft á tilfinninguna að það væri frummyndin sem Köben hefði síðan stælt).

Þó get ég vottað af reynslu að hundaskítur er mun minni í París en Köben.

Áfram með smjörið

Eftir innlitið í dómkirkjuna röltum við eyjuna á enda og tylltum okkur aðeins á bekk á útsýnisstað á vesturoddanum meðan við réðum ráðum okkar um næstu skref.

Það varð úr að við röltum yfir í latínuhverfið og spókuðum okkur þar heldur stefnulítið áður en við smelltum af nokkrum myndum af Panthéon kirkjunni og fikruðum okkur aftur í átt að Signu, með millilendingu í kaffihúsi þar sem við fengum okkur bjór.

Þar rak Alex augun í verslun sem ég hafði tekið eftir í Parísarbókinni minni og litist vel á, Shakespeare and Company, mjög sérstök og skemmtileg bókabúð af amerískum uppruna (og bækur þar með flestar á ensku). Mæli hiklaust með að nefjum sé stungið þangað inn.

Stefnan var tekin á að ná Eiffel turninum áður en við fengjum okkur kvöldmat og við horfðum því framhjá öllum girnilegu veitingastöðunum í latínuhverfinu sem við strunsuðum framhjá í leið okkar að næsta metró.

Við komum svo akkúrat að Eiffel þegar ljósablikkið (sem mér skilst að standi í hálftíma á dag) var í fullum gangi.

Eiffel turninn

Við létum okkur duga að fara upp á 2. pall (á móts við miðjan turn) enda prýðisútsýni þar. Myndatökur í myrkrinu reyndust hins vegar vandasamar og fóru því að mestu í handarskolum.

Eftir að hafa bandað í átt að upplýstum helstu kennileitum borgarinnar fórum við aftur niður á jafnsléttu og niður í jörðina að ná lest "heim" í hverfið okkar. Við rétt misstum af lest og þurftum því að bíða í tuttugu mínútur eftir þeirri næstu og ekki laust við að hungur væri aðeins farið að sækja á.

Þegar við skiluðum okkur svo aftur í hverfið kom í ljós að samloku- og kebabstaðirnir sem við höfðum séð fyrir okkur í hillingum reyndust alls ekki vera í okkar götu og veitingastaðirnir allir að loka, enda klukkan orðin 22. Við ráfuðum um hverfið og sáum fram á að þurfa að borða gjafasúkkulaðið sem Alex hafði keypt í Belgíu í kvöldmat.

Þá römbuðum við á stað sem var enn opinn og gestir að borða úti á gangstéttinni. Með aðstoð vinalegs Frakka á næsta borði tókst okkur að finna út úr því hvað réttir dagsins væru og fengum annars vegar grillkjúkling með geðveikri sósu og hins vegar alsírskan/túnesískan rétt með alls konar gómsæti soðnu saman.

Eigandi staðarins, afskaplega lífleg kona um fimmtugt, var í miklu stuði og flakkaði milli borða og spjallaði við gesti, öðrum starfsmönnum að því virtist til hálfgerðs ama, enda leit út fyrir að þá langaði bara að fara að komast heim og þeir vildu helst að kerlingin færi að loka staðnum.

Við smjöttuðum hins vegar á okkar réttum í rólegheitum og sötruðum rauðvín hússins, afskaplega úrvinda eftir langan dag. Frá því við báðum um reikninginn og þar til hann loks barst leið óratími og okkur farið að langa að koma okkur heim á hótel. Reikningurinn barst lox og var snarlega greiddur þannig að við kæmumst heim á hótel um miðnættið.

Framhald síðar.


< Fyrri færsla:
Letihelgi okkar frænda
Næsta færsla: >
Latur en eirðarlaus
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry