Að helgarstússi loknu

Ég verð að viðurkenna að ég man ekkert hvað það var sem ég gerði af mér á föstudeginum sjálfum, hef þó grun um að það hafi verið þá sem ég skaust í verslunarleiðangur hér á Amager sem varð heldur endaslepptur. Það sem ég var að leita að var yfirleitt ekki til í réttum stærðum, uppselt með öllu eða krafðist meiri umhuxunar.

Keypti samt kodda.

Á föstudagskvöldinu var síðasta kvöldmáltíð hádegisklúbbsins, þegar við Emilie, Christina og Mette (sem líka skrifuðu saman) heimsóttum Lydiu og Calle kærastann hennar. En við höfðum fyrir sið að borða saman í hádeginu í skólanum meðan á lokaverkefnaskrifum stóð (nema reyndar Calle, sem ekki birtist nema stöku sinnum á fredagsbarnum).

Þetta var mjög huggulegt, við sátum og steiktum allt mögulegt og ómögulegt á "raclette" (nokkurn vegin svona útlítandi). Þau hjónaleysin höfðu útbúið mat í tonnavís og við sátum lengi kvölds við grillið, fyrst í aðalréttunum og svo voru steiktar smápönnukökur með ávöxtum, eðalís og mikið af After Eight brætt yfir allt saman.

Um miðnættið var mettan og rauðvínssötrið farið að segja til sín í almennri dösun og við kvöddumst og héldum hvert í sína áttina. Ég er hins vegar búinn að lofa þeim öllum gistingu á Íslandi ef þau eigi leið um - eins gott að Flyðrugrandinn er þokkalega rúmgóður.

Laugardagur

Á laugardagsmorgni svaf ég að sjálfsögðu út og slæptist ekki af stað út í sólskinið fyrr en frekar seint. Ég hafði ætlað að taka metróinn upp á meginlandið og strikast aðeins, en þegar þangað kom varð fyrir skilti um að engar metróferðir væru um helgina, heldur ækju metróbússar milli áfangastaða.

Ég nennti ekki að þvælast í bússum þannig að ég rölti heim aftur og sótti hjólið (sem ég var næstum búinn að taka með frá upphafi, en hætti við) til að viðhalda mínu ferðafrelsi.

Á strikinu hélt ég svo áfram að saxa á hluti á innkaupalistanum og þrengja hringinn utan um aðra (eftir því sem opnanatími verslana leyfði - ég var svolítið seint á ferð).

Einn viðkomustaðanna var verslunin Indiska og þar sem ég var á rölti niður stiga millum hæða heyrði ég undrandi "Þórarinn?" að baki mér. Þar reyndist mætt Ingibjörg Hilmarsdóttir, einnig þekkt sem Imba hans Óskars í ákveðnum kreðsum. Hún var í stórborgarskreppi með vinkonunum og þótti skondið að rekast á mig í þessari verslun.

Af Strikinu hélt ég svo heim og tróð ukulelenum í bakpoka og hjólaði upp á ytri Nörrebrú til Steina og Gunnar. Þar bauð Steini upp á eðalkjúklingarétt og við gerðum nokkrar misgáfulegar tilraunir til að sampla smá ukulelespil fyrir raftónlistartilraunir Steina. Bras með hljóðnema gerði að verkum að við enduðum á að klemma heyrnartól með "kjálkabómu" utan um gripinn og nota mækinn á bómunni standandi út í loptið.

Þau kvaddi ég svo um miðnættið eftir að hafa horft á bróðurpartinn af hinni stórmerku mynd Freaky Friday í norska sjónvarpinu.

Þaðan lá leiðin aftur í suðausturátt með viðkomu á Kalaset í Nansensgade (sem ég fann reyndar ekki í fyrstu yfirferð en blasti við þegar ég hjólaði til baka). Þar var Espen Snares gengið ásamt sínu posse, enda Inga Rún og Bragi að þeyta skífum.

Þótt það sé að mörgu leyti sérdeilis einfalt að hjóla undir áhrifum eftir aðalgötum Kaupmannahafnar (bara að halda sig á hjólaakreininni og fylgjast með umferðarljósunum framundan) þótti mér samt vissara að skipta yfir í kókið þegar á Kalaset kom, enda hafði bæði verið veitt öli og rauðvíni hjá Steina.

Það kom svo öllum gríðarlega á óvart að Bragi skyldi rífa sig úr bolnum þegar Nasty Boy fór undir geislann.

Eftir lokun á Kalaset fylgdi ég hópnum á latexkjallarann Lades, en þar var staldrað stutt við enda ég óþægilega meðvitaður um að ég væri að dröslast með bakpoka með ukulelenum og reiðhjólahjálmi, sem er ekki endilega heppilegt á troðnum næturklúbbum.

(Ég verð að viðurkenna að ég er ekki manna duglegastur að nota hjálminn, en þegar ég var að búa mig af stað til að hjóla uppeftir þótti mér þetta svo svaðilfaralegur leiðangur að höfuðkúpu hinni ytri var skellt á kollinn.)

(Og ef maður á annað borð er að álpast til að hjóla léttkenndur er kannski bara eins gott að vera með hjálm.)

En frekar en að fylgja hópnum áfram af Lades ákvað ég að blása af þetta síðasta helgardjamm mitt í þessari umferð í Kb. Að vísu er skammarlegt að játa hversu takmarkað úthald maður hefur, en ég var kominn heim rétt fyrir hálffjögur.

Sunnudagur

Á sunnudeginum vaknaði ég þokkalega sprækur, kannski þó með örlítinn þynnkuvott eftir óbeinar reykingar næturinnar sem undan fór, en það bráði hratt af mér.

Það gerði letin hins vegar ekki, að frátöldum stuttum hjólatúr um Amager Fælled útivistarsvæðið (sem verðskuldar líklega eigin færslu) hengslaðist ég heimavið mestan hluta dags og starði í tölvuskjáina án þess að teljandi afrakstur hlytist af.

DVD gláp um kvöldið. Lítt eftirminnilegt.

Og þannig leið síðasta helgin í Köben, að mörgu leyti bara nokkuð dæmigerð.


< Fyrri færsla:
Nýtt leikfang móttekið
Næsta færsla: >
Fjöldaslagsmál og óeirðir
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry