Fjöldaslagsmál og óeirðir

Á sunnudeginum voru 260 unglingar handteknir eftir slagsmál við lögreglu uppi á Nörrebrú.

Þegar ég sá fréttirnar um kvöldið varð mér hugsað til Tóta og Auju, enda kom í ljós að þau voru í hringiðu atburða eins og sést af frásögn Tóta.

Þeim hjónum tókst að þrauka störukeppnina yfir kaffibollunum og komast óhult heim.

Á sama tíma var ég í stuttum hjólatúr um Amager Fælled útivistarsvæðið sem er hérna rétt hjá. Það er stórt opið svæði með malarstígum innan um birkiplöntur (næstum íslensk stemmning á köflum).

Þar á opnu svæði var mikið um hróp og köll og ég steig af hjólinu og stillti mér upp með litlum hópi áhorfenda.

Þarna voru hátt í hundrað krakkar á aldrinum ca. 6-12 ára, í miklum meirihluta strákar, klæddir í ýmis konar múnderingar og með bólstruð sverð og axir.

Fjöldaslagsmál í Amager Fælled

Hinum megin í rjóðrinu stóðu svo 6-7 fullorðnir og þegar merki var gefið hlupu maurarnir af stað með vopnin á lofti.

Fjöldaslagsmál í Amager Fælled

Fjöldaslagsmál í Amager Fælled

Þeir fullorðnu sýndu hins vegar kænsku í að bíða þar til fyrstu krakkarnir voru næstum komnir að þeim og ráku þá upp mikil öskur og ruddust inn í þvöguna.

Fjöldaslagsmál í Amager Fælled

Um það bil mínútu síðar var slagurinn að mestu yfirstaðinn, með "særða" stríðsmenn sitjandi á jörðinni og bíðandi eftir að þessum slag lyki. Eftirstandandi "hetjur" hlupu hins vegar um í hringi og reyndu að forðast að vera slegnir, eftirlifandi fullorðnum til lítillrar ógnar.

Þetta horfði ég á endurtaka sig tvisvar, svo til nákvæmlega eins í bæði skiptin. Árás krakkanna tvístraðist um leið og þeir fullorðnu brugðust við og helmingur liðsins sneri við og allt fór í upplausn. Þeir fullorðnu bjuggu líka að því að vera með langskeptar axir og gátu höggvið stubbana niður úr öruggri fjarlægð.

Þegar ég hafði horft nægju mína og hjólað stóran hring um svæðið, niðurundir Bella Center og kom til baka aftur voru herflokkarnir að tínast frá rjóðrinu og troða sér í metróbússana.

Ekki fór neinum sögum af handtökum né áverkum í þessum fjöldaslagsmálum - öfugt við hin.


< Fyrri færsla:
Að helgarstússi loknu
Næsta færsla: >
Spurning um nettengjara
 


Athugasemdir (2)

1.

elin reit 26. september 2006:

Hæ hó!!

Félagsvist á föstudaginn í Jónshúsi klukkan 20!!

Kemur´iggi?

2.

Þórarinn sjálfur reit 26. september 2006:

Verð í London.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry